Berlínarmúrinn kominn í Borgartúnið

Fulltrúar Reykjavíkurborgar tóku formlega á móti myndskreyttri einingu úr Berlínarmúrnum laugardaginn  3. október. Um er að ræða gjöf frá listamiðstöðinni Neu West Berlin. Höfundur myndverksins er götulistamaðurinn Jakob Wagner.

Við afhendinguna voru Samskipum færðar þakkir fyrir að taka að sér flutning verksins, fyrst landleiðina um 700 kílómetra frá Berlín til Rotterdam og þaðan sjóleiðina til landsins.

Verkið er hluti af heimssögulegum viðburði og var fært Reykjavík að gjöf í tilefni þess að nú eru liðin 25 ár frá því Þýskaland sameinaðist að nýju.

Á myndinni má sjá Herbert Beck, sendiherra Þýskalands á Íslandi, Dag B. Eggertsson borgarstjóra, Tim Renner, ráðuneytisstjóra menningar í Berlín og dr. Jan Paulus, fulltrúa Neu West Berlin listamiðstöðvarinnar.