Samskip með reglulega viðkomu á Húsavík

Húsavík er nýr viðkomustaður í siglingakerfi Samskipa. Skaftafell, nýtt skip félagsins, hefur þar viðkomu á tveggja vikna fresti, samkvæmt nýrri siglingaáætlun sem þegar hefur tekið gildi.

 

Með reglubundnum siglingum til Húsavíkur eru Samskip að efla þjónustu sína á svæðinu með hagkvæmri tengingu beint við meginland Evrópu. Siglingunum til Húsavíkur er ætlað að mæta aukinni flutningsþörf sem tilkomin er vegna framkvæmda á iðnaðarsvæðinu á Bakka, jarðhitavirkjunar á Þeistareykjum og tengdra framkvæmda. Það er trú stjórnenda Samskipa að þessi aukna þjónusta fyrirtækisins muni styðja við frekari uppbyggingu á Húsavík og nágrenni.

 

Í fyrstu ferð sinni til Húsavíkur kom Skaftafell með 50 gáma sem fluttir voru að Þeistareykjum. „Samhliða reglubundnum siglingum til Húsavíkur og auknum umsvifum á svæðinu munu Landflutningar-Samskip taka í notkun nýja 600 m² vöruafgreiðslu á hafnarsvæðinu á Húsavík á næstu vikum þar sem boðið verður upp á vöruhýsingu og margvíslega þjónustu fyrir viðskiptavini Samskipa og Landflutninga,“ segir Ingi Þór Hermannsson forstöðumaður innanlandsdeildar Samskipa. Hann bætir við að með reglulegum siglingum og nýrri vöruafgreiðslu verði Samskip og Landflutningar virkir þátttakendur í uppbyggingunni sem er að hefjast á Húsavík og nágrenni.

 

Eftir að Skaftafell bættist í flota Samskipa sigla nú fjögur skip félagsins milli Íslands og Evrópu. Tvö þeirra, Samskip Hoffell og Samskip Skaftafell sigla vikulega á ströndina og hafa viðkomu á Ísafirði, Akureyri, Húsavík og Reyðarfirði aðra vikuna og á  Sauðárkróki, Akureyri og Reyðarfirði hina vikuna á leið sinni til Kollafjarðar í Færeyjum, Immingham í Bretlandi og Rotterdam í Hollandi áður en siglt er aftur heim til Íslands.