Samskip og Ljósið

Samskip hafa gert samstarfssamning við Ljósið sem er endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda. Samningur þessi felur í sér að næstu fimm árin munu Samskip aðstoða Ljósið við tæknilegan rekstur á tölvukerfi ásamt því að leggja til ákveðinn fjölda tölva á ári.

Markmiðið með þessu samstarfi er að lágmarka kostnað Ljóssins við rekstur og fjárfestingar í tæknilegu tölvuumhverfi.

Ljósið er til húsa að Langholtsvegi 43 í Reykjavík og er eina þjónustumiðstöðin sinnar tegundar á landinu. Þangað eru velkomnir allir krabbameinsgreindir einstaklingar eldri en 18 ára og fjölskyldur þeirra á öllum aldri. Í starfinu er lögð áhersla á þverfaglega nálgun og koma því að verkefninu mismunandi sérfræðingar, s.s. iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, listmeðferðafræðingar, sálfræðingar; og fleiri sem vinna allir að því að endurhæfa, þjálfa og styðja.

Um það bil helmingur af rekstrarkostnaði Ljóssins er sjálfsaflafé, en þeir sem þangað leita þurfa mjög takmarkað að borga sjálfir. Það er því mikilvægt fyrir Ljósið að hafa góða stuðningsaðila og hafa þeir verið heppnir með samstarfsaðila í gegnum árin. Skemmst er að minnast afar vel heppnaðrar söfnunar „Á allra vörum“ árið 2011 og afar myndarlegrar gjafar frá Oddfellow reglunni á Íslandi. Þeir sem hafa notið þjónustu Ljóssins skipta þúsundum frá árinu 2005 þegar starfsemin hófst og hefur þjónustan hlotið mikið lof.

Við fórum í heimsókn í Ljósið og fengum að kynnast stuttlega því frábæra starfi sem þar er unnið. Það fyrsta sem við tökum eftir er hvað allt er bjart og heimilislegt. Í „kaffihúsinu“ sem tekur á móti okkur þegar inn kemur situr fólk og spjallar, nokkru innar er verið að föndra flotta leirmuni og úr herbergi til hliðar streymir fólk sem er að koma úr jógatíma. Á efri hæð eru viðtals- og meðferðarherbergi, auk vel búins tækjasalar og skrifstofu. Í kjallara er matsalur þar sem eldaður er hollur og góður matur og útgengi á fallegan sólríkan pall. Gamla Landsbankahúsið við Langholtsveg hefur sannarlega fengið andlitslyftingu og fallegan tilgang. Það er okkur hjá Samskipum sönn ánægja að geta lagt þessari frábæru starfsemi lið. 

Myndi: Á myndinni eru Pálmar Óli Magnússon forstjóri Samskipa, Erna Magnúsdóttir forstöðuiðjuþjálfi Ljóssins og Ægir Pálsson forstöðumaður tölvudeildar.