Árétting Samskipa vegna umfjöllunar í fréttaskýringarþættinum Kveiki

Vegna umfjöllunar í fréttaskýringarþættinum Kveiki þriðjudagskvöldið 2. október, vilja Samskip árétta að verklagi hefur verið breytt frá þeim tíma (2017) sem fjallað var um í þættinum. Komi í ljós brotalamir á starfsemi starfsmannaleiga sem Samskip hafa átt í viðskiptum við verða þau mál könnuð og á þeim tekið með viðeigandi hætti til samræmis við keðjuábyrgð fyrirtækisins. 

Samskip leggja áherslu á að ekki sé gert upp á milli starfsmanna eftir kyni eða þjóðerni og að starfsmaður sem ráðinn er með aðstoð starfsmannaleigu njóti sömu kjara og þeir sem kynnu að vera ráðnir eftir öðrum leiðum. 

Brjóti starfsmannaleiga á réttindum starfsmanna eða önnur lög og reglur þá jafngildir það broti á samningum við Samskip og er þeim þá rift. Samskip hafa ekki tök á að sannreyna fullyrðingar sem fram komu um að starfsmannaleiga sem fyrirtækið átti í viðskiptum við 2017 hafi nýtt sér starfskrafta fólks sem ekki hafði atvinnuleyfi hér á landi. 

Samskip og stjórnendur fyrirtækisins hafna því alfarið að hafa haft vitneskju um slíkt athæfi. Eftir árið 2017 hættu Samskip viðskiptum við starfsmannaleiguna sem um var fjallað í þættinum. 

Samskip hafa nýtt sér þjónustu starfsmannaleiga vegna tímabundinna verkefna á álagstímum í starfseminni. Samskip leggja sig fram um að vera góður og eftirsóknarverður vinnustaður. Það segir sína sögu að fjölmörg dæmi eru um að starfsfólk sem fyrst hefur komið til starfa í gegn um starfsmannaleigu hafi síðar fengið fulla ráðningu hjá fyrirtækinu.