Fjölskyldumaður sem stundum grípur í gítar

Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri innflutningssviðs Samskipa, er Garðbæingur af 1974 árgerð. Þar sleit hann barnsskónum og gekk í framhaldsskóla og fann eiginkonu sína þótt á þeim tíma hafi hún stigið út fyrir sveitarfélagið í annan framhaldsskóla. Nám og störf hafa svo leitt hann og fjölskylduna víða um land og út fyrir landsteinana líka. Áhugamálin eru fjölbreytt, en gítaráhugi hefur verið viðvarandi alla tíð.

 

 

Birgir Gunnarsson er Garðbæingur af 1974 árgerð. Þar sleit hann barnsskónum og gekk í framhaldsskóla og fann eiginkonu sína þótt á þeim tíma hafi hún stigið út fyrir sveitarfélagið í annan framhaldsskóla. Nám og störf hafa svo leitt hann og fjölskylduna víða um land og út fyrir landsteinana líka. Áhugamálin eru fjölbreytt, en gítaráhugi hefur verið viðvarandi alla tíð.

„Ég er uppalinn í Garðabæ og var þar bæði í grunn- og framhaldsskóla,“ segir Birgir og kveður hafa verið dásamlegt að alast þar upp. „Garðabær var miklu minni í þá tíð. Allir unglingarnir gengu í Garðaskóla og krakkarnir af Álftanesi líka. „Þetta var skemmtilegur árgangur og margir skemmtilegir karakterar í honum. Það var mikið brallað og mikið stuð. Þannig að það var frábært að alast þar upp.“

Á þessum árum varð líka til vinskapur sem haldið hefur alla tíð, en í vinahópi Birgis segir hann að sé kjarninn úr gamla vinahópnum. „Það er auðvitað mismikið sem fólk er í sambandi, en við hittumst alltaf reglulega þessi gamli kjarni og gerum eitthvað saman. Síðasta sumar fórum við til dæmis til Köben og fórum á Guns N‘ Roses tónleika, sem er svona æskubandið. Þannig að það eru alltaf einhver samskipti.“ Birgir segir vinina úr Garðabæ meira og minna hafa haldið í tvær áttir þegar kom að vali á framhaldsskóla. „Helmingurinn fór í Versló og hinn helmingurinn í FG. Og svo fara menn hingað og þangað um heiminn og allt þetta. En þessi bönd halda alltaf og slitna ekki þó að dags daglega séu menn kannski í samskiptum við annað fólk sem er nær þeim í lífinu.“

Fór norður í háskóla

Birgir er fjölskyldumaður. Leiðir hans og eiginkonunnar, Ásthildar Björnsdóttur, lágu snemma saman, þegar þau voru bara átján ára gömul, en hún er líka Garðbæingur. „Já við erum eiginlega búin að vera saman síðan að við vorum krakkar.“ En þrátt fyrir smæð bæjarfélagsins á þessum tíma, þar sem bara voru nokkrir bekkir í hverjum árgangi, var það ekki fyrr en komið var í framhaldsskóla að þau kynntust og með þeim tókust ástir. Þau höfðu alist upp í sitt hvorum enda bæjarins og voru hvort í sínum vinahóp. „Hún fór í Versló og ég í FG og síðan hittumst við þannig lagað bara fyrir tilviljun og smullum saman. Við höfum verið saman síðan þá og eigum tvær dætur, önnur fædd á Akureyri 1996 þegar við vorum nýkomin þangað og er að verða 22 ára og hin er fædd 2001 og að verða 17 ára.“

Á Akureyri stundaði Birgir háskólanám og nam sjávarútvegsfræði, eftir útskrift úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ (FG) árið 1995.“ Svo þegar við komum til baka um 2000 þá enduðum við í Hafnarfirði.“ Þar hefur fjölskyldan svo haldið sig í þessi átján ár sem liðin eru utan fimm ára tímabils þegar þau voru búsett í Hollandi vegna starfa Birgis þar. „En núna erum við svo að venda okkar kvæði í kross og við það að flytja upp í Mosó,“ segir Birgir. „Við erum að byggja þar og má kannski segja að það sé okkar helsta áhugamál í dag. En það tekur nú vonandi einhvern tímann enda.“

Fékk launaseðil níu ára

Eftir útskrift úr framhaldsskóla tók Birgir sér árshlé frá námi og fór að vinna. Hann vann lungann úr því ári í fiski og hóf svo nám í sjávarútvegsfræði, sem var námið sem hann var ákveðinn í að hefja eftir fjölbraut. En líkt og algengt er má rekja vinnuferil Birgis eitthvað lengra aftur í tímann, enda löng hefð fyrir því hér að krakkar hefji snemma sumarstörf. Fáir hafa þó líklega jafnungir fengið sinn fyrsta launaseðil. „Fyrsti launaseðillinn sem ég fékk var í kolafrystingu á Reyðarfirði hjá eiginmanni frænku minnar. Ég var þar í sveit nokkrar vikur yfir sumarið og hann var með frystingu á flatfiski, kola. Ætli ég hafi ekki verið níu eða tíu ára og hann var svo rausnarlegur að gefa mér launaseðil.“

Eftir þessi fyrstu skref í launavinnu á Austfjörðum segir Birgir vinnuferilinn svo hafa hafist með sumarstörfum eftir fermingu. „Þá vann í ég saltfiski og svo aftur sumarið eftir það.“ Ég fékk svo sumarstarf í álverinu í Straumsvík þegar ég hafði aldur til. „Ég held ég hafi verið þar sjö sumur, eða svo, þangað til ég klára háskólanám.“

Mikið flakk tengt vinnu

Á meðan Birgir var í sjávarútvegsfræðinni fyrir norðan prófaði hann líka að fara á sjó. „Ég var eitt sumar á frystitogara sem var alveg meiriháttar skemmtilegt.“ Á þessum tíma var netbólan líka í algleymingi og með námi fór Birgir að vinna hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Maritech sem bjó til hugbúnað fyrir sjávarútveg. „Þar gerði ég lokaverkefnið mitt og vann þar síðasta veturinn á meðan að ég var í náminu.“ Úr varð svo að hann ílengdist hjá fyrirtækinu og starfaði hjá þeim allt til ársins 2007. „Þá var maður fyrst að þvælast um allt land í allar fiskvinnslur og útgerðir með Wisefish sem er hugbúnaður fyrir sjávarútveg. Síðustu tvö árin hjá Maritech var ég mest að vinna í verkefni í Suður-Afríku í verkefni fyrir fyrirtæki sem heitir Sea-Harvest og er annar stærsti kvótahafinn þar í landi. Þá fór maður þangað niður eftir einhverjar tíu til tólf ferðir á þessu tímabili sem var mjög skemmtilegt. En síðan fékk maður svona nóg af þessu hugbúnaðarveseni og langaði til að fara að prófa eitthvað annað. Og þá kom ég hingað til Samskipa, í janúar 2008.“

Eftir tíu ára feril innan fyrirtækisins tók Birgir sæti í framkvæmdastjórn Samskipa um síðustu áramót. Hann byrjaði í útflutningsdeild, fór svo til Hollands ársbyrjun 2013 og kom svo heim í innflutningsdeildina sem forstöðumaður í ársbyrjun 2017. „Vinnuferillinn er svona flakk hingað og þangað, og auðvitað margt skemmtilegt sem hefur gerst á öllum þessum stöðum.“

Gítaráhuginn er brennandi

Birgir segir að í gamla vinahópnum hafi verið mikill tónlistaráhugi í gamla daga og starfræktar bæði skóla- og bílskúrshljómsveitir. „Ég er búinn að glamra á gítar frá því að ég var 14 ára og það er svona eitt af áhugamálunum,“ segir hann, en gítaráhuginn hefur verið mikill og viðvarandi. „Mér finnst rosalega gaman að fara í gítarbúðir erlendis og grúska og skoða og svona. Það hefur alltaf verið tónlistaráhugi.“ Fyrirmyndirnar í gítarleiknum segir hann líka að hafi verið margar í gegn um tíðina.

„Í dag er uppáhaldsgítarleikarinn minn eiginlega Stevie Ray Vaughan. Og svo finnst mér gaman að hlusta á einn af minni kynslóð, John Mayer. Það er algjörlega frábær tónlist sem hann hefur búið til,“ segir hann og á vart orð til að lýsa gítarfimi Mayers. „En síðan eru náttúrlega hundrað aðrir.“ Birgir segir tónlistarsmekkinn breiðan og hann kunni að meta alla skemmtilega tónlist. „Æskan var dálítið rokkuð en síðan hefur fullt af öðrum hlutum dottið inn. Það er fullt af íslenskri tónlist í dag sem mér finnst alveg frábær og  það þarf ekki endilega að vera rokk. Hjálmar finnast mér alveg frábærir og svo Mugison og fleiri og fleiri. Það eru margir að gera mjög flotta tónlist.“

Þrátt fyrir gítar- og tónlistaráhuga er Birgir samt ekki í hljómsveit. „Nei, eftir FG árin hef ég bara spilað fyrir sjálfan mig,“ segir hann, en bætir um leið við að þegar haldin hafi verið „reunion“ úr Garðaskóla þar sem 1974 árgangurinn kemur saman þá hafi nú stundum verið „smellt í gamla bandið og búinn til smá hávaði“.

Siglingar og fjallgöngur

Hvað önnur áhugamál varðar þá segist Birgir hafa prófað ýmislegt þótt ekki hafi það allt enst. „Ég keppti mikið á skútum þegar ég var krakki og það kom aðeins aftur í seinni tíð.“ Hann hafi dálítið siglt áður en fjölskyldan flutti til Hollands, en ekki mikið allra síðustu ár. Einu sinni hafi hann meira að segja farið í siglingu héðan til meginlands Evrópu, í túr sem tók þrjár vikur. „Þá hafði hér vetursetu finnsk skúta og ég kynntist eigandanum og var svona í samskiptum við hann annað slagið allan veturinn og svo hélt hann siglingunni áfram suður til Evrópu þegar voraði og ég fór með honum.“

Fjallgöngur og útivist hafa líka fylgt Birgi frá fornu fari. „Þegar maður var yngri þá var farið á fjöll allt árið um kring en eftir að maður varð eldri þá hefur það einskorðast meira við sumarið. Við ferðumst dálítið á fjöll á sumrin ég og konan og höfum gaman af.“ Birgir segir þau hjón líka virk í hreyfingu. „Ásthildur er hjúkrunarfræðingur og bætti við sig heilsumarkþjálfun og er líka ÍAK einkaþjálfari. Við höfum gaman af því að vera í ræktinni og reyna svona að halda okkur við.“

Kúplar sig út með söng

Svo halda þau líka tvo pug-hunda. Og það er áhugamál líka, þó svo að þeir séu kannski meira áhugamál konunnar en mitt. Maður kemst ekki hjá því að taka þátt í því. Annan hundinn tókum við með okkur frá Hollandi og hinn bættist svo í fjölskylduna eftir að við komum heim síðasta sumar. Þeir eru stjörnur á Instagram, því nokkuð oft er verið að birta myndir af þeim þar. Það fer smá tími í það.“

Nýjasta áhugamálið er hins vegar söngtengt því síðasta haust byrjaði Birgir í karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði. „Ég vissi svo sem ekkert hvað ég var að fara út í, en það hefur komið mjög á óvart hvað mér finnst þetta skemmtilegt.“ Hann segir fylgja því ákveðna hugarró að enda daginn á kóræfingu. „Maður kúplar sig algjörlega út úr deginum og fer í einhvers konar núvitundarástand. Þetta er nokkurs konar hugarleikfimi sem er alveg frábært.“ Æfingar segir hann einu sinni til tvisvar í viku eftir því hvað mikið er að gera. Og þó svo að fyrir dyrum sé flutningur í Mosfellsbæinn stefnir Birgir á að halda áfram í kórnum. „Það ætti ekki að vera neitt vandamál.“

Gitarar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gítaráhugi hefur fylgt Birgi frá fornu fari og hann gerir sér gjarnan far um að heimsækja og grúska í gítarverslunum þegar hann er á ferð í útlöndum. (Mynd úr einkasafni.)

Ferda

 

Fjölskyldan á ferðalagi. Birgir tekur sjálfu þar sem þau voru á ferðalagi í Sviss sumarið 2015, hann, Ásthildur og dætur þeirra tvær, auk hundsins í fangi Ásthildar. (Mynd úr einkasafni.)

100_1887

Birgir í skútusiglingunum. Hann eitt sinn héðan til meginlands Evrópu með finnskum skútueiganda sem haft hafði vetursetu hér á landi. (Mynd úr einkasafni.)

20476629_10154992231583165_2060885798639425251_n

Birgir og Ásthildur eru áhugafólk um útivist og hreyfingu og fara gjarnan saman í fjallgöngur. (Mynd úr einkasafni.)