Heimur minnkandi fer

Miklar framfarir á síðustu misserum í samskiptalausnum auðvelda starfsfólki Samskipa að tala saman heimshorna á milli og spara þannig dýrmætan tíma og fjármuni.

„Mikil samþætting hefur orðið í samskiptalausnum upp á síðkastið og þær eru orðnar mun notendavænni en þær voru.  Betri búnaður gerir fjarfundi einnig mun fýsilegri kost en þeir voru hér á árum áður“ segir Ægir Pálsson, forstöðumaður tölvudeildar Samskipa.  „Þetta kemur sér vel fyrir fyrirtæki eins og okkar, en við erum með á fimmta tug starfsstöðva víðsvegar um heim. Fólkið okkar hefur tækifæri til að eiga betri og tíðari samskipti án þess að þurfa að ferðast á milli staða.  Það gefur augaleið að ávinningurinn í tímasparnaði og fjármunum er mikill.“

Aegir_PalssonTölvudeildir Samskipa í Reykjavík og í Rotterdam hafa bætt við búnaði hjá starfsfólki víða í Evrópu og um allan heim til að auðvelda samskipti og hefur það gefist vel en alls starfa um 1.300 starfsmenn hjá Samskipum í Evrópu, Asíu, Ástralíu, Norður- og Suður-Ameríku.  Starfsemi Samskipa er þess eðlis að hún teygir anga sína víða og tengsl starfsfólks um allan heim eru lykilþáttur í að þjónusta við viðskiptavini gangi vel fyrir sig.

Ýmsar nýjungar eru á döfinni í þessum efnum í Reykjavík og einnig í Rotterdam og verður spennandi að fylgjast með á næstu mánuðum.