Ísafjörður bætist við strandleið Samskipa

Ísafirði hefur verið bætt við sem viðkomuhöfn á Strandleið Samskipa og verður þar fyrsta viðkomuhöfn á leiðinni norður og austur fyrir land áður en haldið er til Færeyja. 

Viðamiklar breytingar
„Við réðumst í haust í umfangsmiklar breytingar á siglingakerfi okkar sem gefið hafa afar góða raun,“ segir Guðmundur Arnar Óskarsson, forstöðumaður flutningastjórnunardeildar Samskipa.  „Bætt var við einu skipi og tvö önnur skip stækkuð og siglingakerfið endurskipulagt þannig að tvær leiðir, Suðurleið og Norðurleið sigla til Bretlands og meginlands Evrópu á meðan viðkomum í völdum höfnum hér á landi var fjölgað með Strand- og Suðurleiðinni, en Strandleiðin fer líka til Færeyja og siglir þaðan til Reykjavíkur þar sem vörunni er umskipað áfram til Evrópu.“

Fleiri kostir skoðaðir
Guðmundur segir að við innleiðingu á nýju kerfi þurfi líka sveigjanleika og þannig hafi eftir dálítinn umþóttunartíma verið talið best að finna Ísafirði stað á Strandleiðinni sem fyrsta viðkomuhöfn, aðra hverja viku, áður en siglt er norður og austur fyrir land. „Um tíma kom einnig til greina að Ísafjörður yrði fyrsta höfn á Suðurleið, á undan Bíldudal, líkt og fjallað var um nýverið í frétt á vef Bæjarins besta,“ segir hann. Strandleiðin hafi hins vegar verið talin henta betur. Þegar ófærð hamlar vegasamgöngum megi til dæmis flytja vörur þangað sem hægara er að koma þeim landleiðina á áfangastað, en útflutningur fari um borð í skip á leið til Evrópu í Reykjavík. 

Öryggi og áreiðanleiki í fyrirrúmi
Afskaplega ánægjulegt er, að sögn Guðmundar, að geta bætt Ísafirði inn í siglingaleið Samskipa og væntir hann þess að breytingin komi til góða bæði þeim sem flytja inn og út frá Ísafirði. „Öruggar og hagkvæmar flutningaleiðir skipta höfuðmáli og við bjóðum Ísfirðinum áfram þjónustu í gæðaflokki,“ segir hann. Samskip segir Guðmundur að hafi meðal annars ráðist í endurnýjun á siglingakerfinu til að auka áreiðanleika í flutningunum og til að svara kalli markaðarins vegna aukningar á ferskfiskflutningum síðustu misseri og ár. „Með breyttu leiðakerfi eru Samskip kjörinn kostur í þessa flutninga, enda sjóflutningar hagkvæmari á margan hátt, bæði í samanburði við flug, og eins til að létta álagi af flutningum innanlands þar sem það á við.“