Notar Helgafellið til æfinga

 Birkir Hólm Guðnason, nýr forstjóri Samskipa, hefur búið í Danmörku, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Hann segist spenntur fyrir að starfa á nýjum vettvangi en síðustu 10 ár á undan hefur hann verið framkvæmdastjóri Icelandair.

Nýr forstjóri Samskipa, Birkir Hólm Guðnason segist spenntur fyrir að starfa á nýjum vettvangi en síðustu 10 ár á undan hefur hann verið framkvæmdastjóri Icelandair.

„Eftir 18 ár hjá Icelandair langaði mig að breyta til, en það má segja að ég sé enn á þessum alþjóðlega markaði þar sem Samskip er hluti af stórri heild með flutningskerfi sem nær út um allan heim,“ segir Birkir en um þessar mundir er fyrirtækið að taka nýtt siglingakerfi í notkun.

„Það mun hjálpa mikið við að sinna íslenska markaðnum enn betur með góðri þjónustu við bæði útflytjendur og innflytjendur á vörum. Með breytingunum, sem fela í sér að við erum að stórauka flutningsgetu félagsins, bætast við nýir valmöguleikar fyrir viðskiptavini félagsins. Við ætlum okkur að spila öflugan sóknarbolta og auka markaðshlutdeild Samskipa.“

Birkir er giftur Fríðu Dóru Steindórsdóttur hjúkrunarfræðingi og flugfreyju og eiga þau saman fjögur börn. „Börnin eru 8, 12, 15 og 18 ára gömul, tvær stelpur og tveir strákar. Ég held þetta sé alveg nóg, þegar þú ert búinn að fylla sex sæti, heila röð í flugvél. Svo erum við með tvo hunda þannig að það er mikið líf á heimilinu,“ segir Birkir sem reynir að eyða frítímanum sem mest með fjölskyldunni.

„Þess utan eru áhugamálin bara þessi klassísku, ég reyni að fara í golf og laxveiði þegar ég get. Svo ferðumst við saman, bæði til útlanda, en einnig förum við mikið norður þar sem ég er alinn upp. Börnin elska Akureyri. Á seinni árum hef ég meira verið að fara töluvert á skíði en það var minna um það þegar ég var að alast upp. Loks byrjaði ég aðeins í vor að fara í fjallgöngur, en ég er eiginlega bara að labba Helgafellið, er búinn að fara einhverjar 10 ferðir þangað í sumar. Ég lít á þetta sem æfingabúðir áður en ég fer í lengri ferðir.“

Birkir bjó í fimm ár í Danmörku á námsárunum, en fljótlega eftir að hann hóf störf fyrir Icelandair að námi loknu var hann beðinn um að fara til Bandaríkjanna þar sem hann var svæðisstjóri fyrir Norður Ameríku.

„Við vorum þar í þrjú ár og líkaði okkur mjög vel, síðan fórum við til Þýskalands og það var mikið sjokk að venjast því að þar voru allar helstu verslanir ekki opnar á sunnudögum meðan hægt var að versla alla þjónustu sem þú vildir í Bandaríkjunum allan sólarhringinn.“

 

Birtist í Viðskiptablaðinu.