Fréttir
  • 12_vef

HB Grandi og Norðanfiskur stíga vistvæn skref með Íslenska gámafélaginu og Samskipum

28.3.2019

Í dag undirrituðu þessi fyrirtæki yfirlýsingu um endurvinnslu og útflutning frauðplasts.

Verkefnið byggir á frauðpressuvél sem staðsett er í Kistunni, sorpflokkunarstöð HB Granda á Akranesi, en félagið rekur sínar eigin sorpflokkunarstöðvar á öllum þremur starfsstöðum félagsins, í Reykjavík, á Akranesi og Vopnafirði. Pressuvélin minnkar ummál fiskikassanna um 95% og með því gefst tækifæri til þess að flytja plastið til endurvinnslu erlendis.

Á umhverfissýningu í Munchen síðsta vor komst HB Grandi, ásamt Íslenska gámafélaginu, í kynni við kínverskt fyrirtæki sem hafði áhuga á því að kaupa allt frauðplast sem til félli í starfsemi félagsins. Með samstarfi HB Granda, Norðanfisks, Íslenska gámafélagsins og Samskipa verður fluttur út í dag fyrsti gámurinn með 7 tonnum af pressuðu frauðplasti, til Malasíu, þar sem efnið verður notað til að framleiða meðal annars mynda- og speglaramma.

Með þessu verkefni er lagður grunnur að raunhæfri lausn til að endurnýta úrgang og skapa verðmæti. Markmið allra þriggja fyrirtækjanna er að vera leiðandi í umhverfismálum.

Þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum sem hafa verið í gangi hjá HB Granda sem snúa að umhverfismálum. Önnur samfélagsskýrsla HB Granda verður gefin út 29.mars þar sem fjallað er um útflutning á frauðplasti og fjölmörg önnur umhverfis og samfélagstengd verkefni. Að mörgu er að hyggja í þessum efnum og mikilvægt að vera vakandi fyrir áhugaverðum tækifærum sem geta dregið úr kolefnisfótspori fyrirtækja.

Markmið Íslenska Gámafélagsins er að vera leiðandi á sviði umhverfismála í sorphirðu, endurvinnslu og endurnýtingu. Félagið býður snjalla hugbúnaðartæknilausn sem auðveldar fyrirtækjum og stofnunum að umhverfisvæða og rafvæða í rauntíma allar skráningar sorps og endurvinnslu hráefna.

Samskip hafa markað skýra stefnu í umhverfismálum, ekki aðeins í samræmi við samfélagslega ábyrga starfshætti félagsins heldur gengur viðskiptamódel félagsins enn lengra en kröfur samfélagsins gera.

Samskip og HB Grandi eru félagar í Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð. Jafnframt er Samskip einn af stofnendum Votlendissjóðsins en einna mikilvægasti þátturinn í umhverfismálum Samskipa eru fjölþátta flutningar.

 12_vef

Frá undirritun samningsins frá vinstri: Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa, Sigurjón Gísli Jónsson, framkvæmdastjóri Norðanfisks og Jón Þórir Franzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins.

 


Til baka í fréttir