Fréttir
  • Þorkell Kristinsson

„Ég hef fengið mörg skemmtileg tækifæri hjá Samskipum“

12.4.2019

Þorkell Kristinsson viðskiptastjóri hjá útflutningsdeild Samskipa hóf ferilinn í gámaþvotti þegar hann var í menntaskóla. Í dag hefur hann lokið BSc í viðskipafræði frá Háskólanum í Reykjavík og Meistaragráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands.

„Ég hef fengið mörg tækifæri til að vaxa og dafna í starfi hjá Samskipum og fengið tækifæri og traust frá stjórnendum til að spreyta mig í fjölbreyttum verkefnum. Það hefur styrkt mann mikið í að sækja frekar fram,“ segir Þorkell.

„Í dag er ég viðskiptastjóri útflutningsdeildar. Við seljum flutningaþjónustu á markaði til fiskiviðskiptavina og annarra sem stunda útflutning frá Íslandi. Við leitum ávallt nýrra tækifæra. Það er mjög gaman og spennandi að vera í tengslum við okkar viðskiptavini og maður fær að ferðast um Ísland í leiðinni og hitta fólk sem er virkilega gaman fyrir mann eins og mig.“

Þorkell segir enn fremur að vægi sé mikið í verði per gám en það sem skipti auknu máli í dag sé allt auka verðmæti og það sé fyrst og fremst þjónustan sem Samskip veiti. „Það er ótrúlega mikilvægt að finna lausnir fyrir daglegan rekstur fyrirtækjanna,“ segir Þorkell.

Þorkell segir suma viðskiptavini vilja vera á því sem kallað er „spotmarkaður“ en þar er unnið vikulega í því að finna lausnir fyrir viðskiptavini sem gerir það að verkum að um náið samband er að ræða við viðskiptavininn til að finna leiðir til að þjónusta hann. „Það er mikilvægt á spotmarkaði að vera fljótur að hugsa og teikna upp lausnir fyrir þau fyrirtæki sem leita til okkar. Það getur oft verið krefjandi að koma upp með lausnir enda eru þarfir fyrirtækja mismunandi. Í þessum viðskiptum er mikilvægt að lausnir séu skýrar og viðskiptavinurinn getur treyst því að Samskip komi hans vöru á áfangastað,“ segir Þorkell.

Viðskiptavinir kveikja á að Samskip eru umhverfisvænni kostur

Samskip leiða í Evrópu í visthæfari flutningum og Þorkell segir að viðskiptavinir séu að kveikja á því að val á Samskipum sé það sem hann kallar „go green“. „Við þurfum að vera duglegri að segja frá því að Samskip sé að hugsa um sín kolefnisfótspor og við séum að nota okkar flutningskerfi í Evrópu sem byggist upp á því að draga úr kolefnislosun. Neytendur hugsa enn mikið í krónum en þetta er aðeins að breytast og vægi umhverfismála að aukast. Samskip eru grænni kostur vissulega en það þarf dálítið að útskýra fyrir viðskiptavinum af hverju það skiptir þá líka máli. Það getur opnað á ný tækifæri fyrir okkar viðskiptavini að við séum að draga úr kolefnislosun. Þetta skiptir auðvitað alla máli þegar öllu er á botninn hvolft að hugsa um umhverfið, það er „win win“ fyrir alla,“ segir Þorkell.

„Meðvitund um grænni kosti vex eftir því sem við tölum meira um þetta. Og þetta er klárt forskot sem við höfum á aðra. Við erum með vistvænni flutninga og þetta skiptir t.d. útflytjanda sem er að selja vöru í súpermarkað í París eða Berlín verulega miklu máli. Við þurfum að halda þessu á lofti sjálf í samskiptum okkar við viðskiptavini.“

Hefur ekki sagt mörgum frá því að hann elskar kántrítónlist

Að lokum er Þorkell spurður um áhugamálin. Hann segist vera Manchester United maður og Frammari þótt hann hafi ekki fylgst vel með síðan liðið fór niður í fyrstu deild.

„Ég hef líka hrikalega gaman af því að veiða. Fer á Þingvallavatn á árabát og veiði bleikju og urriða, þar eyði ég mörgum kvöldstundum. Ég fer oft beint upp í sveit eftir vinnu og er kominn heim um miðnætti. Svo hef ég líka svona áhugamál sem fáir vita um, en ég er sem sagt mikill kántrí-aðdáandi. Við erum samt nokkrir hérna í Samskipum sem deilum þessu áhugamáli. Ég er einmitt núna að hlusta á The Highwaymen í bílnum,“ segir Þorkell.

„Ég elska hvað það er góður andi í vinnunni. Gaman að mæta á morgnana og allir að vinna í sömu átt. Við erum öll að dansa línudans hérna í vinnunni og við gerum það alveg ótrúlega vel,“ segir Þorkell að lokum.

Saman náum við árangri.


Til baka í fréttir