Ný þvottastöð fyrir flutningabíla

Samskip hafa tekið í notkun vel útbúna, sjálfvirka og afkastamikla þvottastöð fyrir flutningabíla sem leysir af hólmi aðra eldri sem þrifið hefur bíla Landflutninga á liðnum árum.

Þar sem nýja þvottastöðin er mannlaus hafa eigendur og ökumenn flutningabíla aðgang að henni allan sólarhringinn.  Auðvelt aðgengi er fyrir flutningabíla að stöðinni sem ökumenn stjórna með snertiskjá þar sem hægt er að velja á milli margvíslegra möguleika, bæði hvað varðar þvott og sápumagn.

Stöðin, sem kemur frá Svíþjóð, er framleidd af Westmatic sem sérhæfir sig hönnun og smíði á þvottastöðvum fyrir stór farartæki, s.s. strætisvagna, rútur og lestarvagna, auk flutningabíla og tengivagna.

Ingi S. Ólafsson, rekstrarstjóri bílarekstrardeildar Samskipa, segir að stöðin hafi mælst vel fyrir „og ljóst að töluverð eftirspurn var eftir þessari þjónustu. Hugað var að mörgum þáttum við val á þvottastöðinni og þar skipti öryggi miklu máli og einnig umhverfismál, en stöðin endurnýtir m.a. vatnið sem frá henni kemur.”

Samskip hafa útbúið kynningarmyndband um stöðina og fyrir þá sem áhuga hafa á að nýta sér hana, þá bendum við þeim á að hafa samband við Inga S. Ólafsson í síma 458 8658 eða með tölvupósti ingi.s.olafsson@samskip.com.