Samskip auka prammaflutninga um síki Evrópu

Samskip tvöfölduðu nýverið flutningsgetu sína með fljótaprömmum milli Rotterdam og Duisburg í Þýskalandi í samstarfi við flutningafyrirtækið Pro-Log sem sérhæfir sig í prammaflutningum.

Samskip tvöfölduðu nýverið flutningsgetu sína með fljótaprömmum milli Rotterdam og Duisburg í Þýskalandi í samstarfi við flutningafyrirtækið Pro-Log sem sérhæfir sig í prammaflutningum. Prammarnir flytja gáma frá höfninni í Rotterdam að miðstöð lestarflutninga Samskipa í Duisburg í Þýskalandi.

 

Þegar prammaflutningar hófust fyrir 10 árum, þóttu Samskip sýna frumkvæði í umhverfismálum með bættri umgengni um náttúruauðlindir og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Í þeim tæplega 3000 ferðum sem farnar hafa verið milli Rotterdam og Duisburg er áætlað að prammaflutningarnir hafi minnkað útblástur á CO2 um 500 kíló miðað við að akstur flutningabíla með sama farm  milli þessara staða. Hingað til hefur prammi farið með gáma Samskipa þrjár ferðir á viku milli borganna. Nú hefur gámunum fjölgað og ferðirnar sex og því verður ávinningurinn fyrir umhverfið enn meiri.

 

Flutninganet Samskipa með fljótaprömmum Evrópu er víðfeðmt og eftirspurn eftir þessari umhverfisvænu lausn er sívaxandi meðal viðskiptavina Samskipa. Fyrir ári fengu Samskip umhverfisverðlaun bresku flutningasamtakanna BIFA fyrir umhverfisvæna flutninga með prömmum frá Rotterdam til Bretlands. Þeir flutningar taka innan við tvo sólarhringa og eru taldir leysa af um 15.000 ferðir vöruflutningabíla sem annars hefðu ekið með farminn um vegakerfi Evrópu.