Samskip í nýja höfn í Bretlandi

Fyrir dyrum stendur flutningur á viðkomustað Samskipa á Bretlandseyjum. Þann 16. júlí næstkomandi fara flutningar Samskipa um Hull í stað Immingham áður. 

Fyrir dyrum stendur flutningur á viðkomustað Samskipa á Bretlandseyjum. Þann 16. júlí næstkomandi fara flutningar Samskipa um Hull í stað Immingham áður.

Samskip eru stærsti viðskiptavinur hafnarinnar í Hull, en þar munu nú mætast siglingar til og frá Íslandi og flutningakerfi Samskipa í Evrópu. Samskip flytja á ári hverju yfir 100 þúsund gámaeiningar um höfnina í Hull. Höfnin er þannig næst umsvifamesta höfn Samskipa á eftir Rotterdam.

 „Höfnin í Hull býður viðskiptavinum sínum afbragðs aðstöðu og þjónustu, sem kemur viðskiptavinum okkar til góða. Breytingin leiðir af sér styttri viðkomutíma skipa og þar með bætta þjónustu við viðskiptavini okkar,“ segir Guðmundur Þór Gunnarsson framkvæmdarstjóri rekstrarsviðs Samskipa.

Skammt er á milli hafnanna í Hull og Immingham

Engin breyting verður á móttöku lausavöru enda skammt á milli hafnanna í Hull og Immingham. Vöruhús Samskipa verður því áfram á sama stað og áður.

„Við breytinguna finna viðskiptavinir okkar fyrst og fremst fyrir hærra þjónustustigi. Annað er óbreytt,“ segir Guðmundur Þór.

Rekja má sögu hafnarviðskipta í Hull allt aftur á þrettándu öld. Það var hins vegar 1773 sem Hull Dock Company var stofnað og fyrsta höfnin var byggð. Þar hefur því verið hafnarstarfsemi óslitið í 245 ár. Núna er höfnin í eigu Associated British Ports og um hana fara samkvæmt nýjustu tölum um 9,3 milljónir tonna af varningi á ári hverju.

Með þessum breytingum tengjast áætlanasiglingar Samskipa til og frá Íslandi nú við flutningakerfi Samskipa í Evrópu um tvær lykilhafnir, Hull og Rotterdam. Breytingarnar opna þannig á nýjar tengingar fyrir viðskiptavini félagsins á Íslandi við flutningakerfi Samskipa í Evrópu.