Samskip styrkja hátíðina Aldrei fór ég suður 2016

Á blaðamannafundi í gær létu aðstandendur Aldrei fór ég suður og bakhjarlar hátíðarinnar húðflúra sig í heilagt samband og innsigla þannig samstarfið.

Hátíð sem þessi, þar sem meira og minna allt er ókeypis, væri náttúrlega ekki gerleg án öflugs stuðnings velunnara. Aðstandendur þakka Flugfélagi Íslands, Samskipum, Orkusölunni, Landsbankanum, 66°North, Kampa og Orkubúi Vestfjarða kærlega fyrir hjálpina, ásamt öllum þeim er leggja stuðning og hönd á plóg. 

 Á meðan gestir gæddu sér á grískri jógúrt frá Mjólkurvinnslunni Örnu voru væntanleg húsakynni hátíðarinnar kynnt, en að þessu sinni verður ný og glæsileg skemma rækjuvinnslunnar Kampa notuð undir hátíðarhöldin. Skemman er öll hin myndarlegasta og mun augljóslega fara vel um bæði listamenn og gesti.

 Að húðflúrun lokinni fóru blaðamenn með bát Borea Adventures að Kvíum í mynni Lónafjarðar þar sem heimskautarefurinn tók á móti fólkinu og bauð í kaffi og með því. Nokkrir fóru í sauna á meðan aðrir skoðuðu sig um. Þegar komið var til baka til Ísafjarðar var boðið upp á leiðsögn um gamla bæinn áleiðis upp að Gamla Sjúkrahúsinu, sem nú gegnir hlutverki safnahúss, þar sem húsráðendur tóku á móti hópnum og fóru lauslega yfir sögu hússins og buðu upp á kaffi og kruðerí.

 Fríður hópur flytjenda kemur fram á hátíðinni; Emilíana Torrini, Strigaskór nr 42, Agent Fresco, Tonik Ensemble, Mamma Hestur, Úlfur Úlfur, Risaeðlan, GKR, Glowie, Sykur og Laddi.

 Hátíðin fer fram dagana 24. – 26. mars og hér er hægt að fá frekari upplýsingar um hátíðina sjálfa.