Samskip taka höndum saman við DC til að auka vægi gámaflutninga í Brasilíu

Nýr samstarfssamningur Samskip Logistics og flutningafyrirtækisins DC Logistics Brasil um þjónustu á landsvísu í Brasilíu vegna vaxandi gámaflutninga í Brasilíu.

Með samkomulagi fyrirtækjanna verður til ný umgjörð um starfsemi Samskip Logistics í Brasilíu, þar sem byggt er á styrk beggja. Teymi Samskip Logistics í Salvador hefur verið fært á skrifstofu DC Logistics Brasil í borginni og fyrirtækið tekið yfir skuldbindingar sem þar voru áður á hendi skrifstofu Samskipa. DC Logistics mun annast öll framtíðarviðskipti Samskip Logistics í Brasílíu og nýtir til þess 11 skrifstofur fyrirtækisins á landsvísu.

Hjá DC Logistics Brasil, sem stofnað var 1994, starfa yfir 200 manns. Fyrirtækið er meðal helstu flutningafyrirtækja Brasilíu. DC Logistics Brasil býður víðtæka þjónustu á sviði flutninga, en sérhæfir sig í flutningi á ferskum og frosnum vörum, textílvörum, víni, kaffi, hjólbörðum og leir til glervinnslu. Samskip Logistics hafa lagt áherslu á þjónustu við kæliflutninga.

„Samstarfið kemur öllum viðskiptavinum Samskip Logistics í Brasilíu til góða. Við áralanga reynslu og sérhæfingu okkar á markaðnum bætast nú umsvif DC Logistics Brasil og áhersla fyrirtækisins á hátt þjónustustig,“ segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskip Logistics. „Við hlökkum til að styrkja með þessum hætti, í samstarfi við öflugt teymi starfsmanna DC Logistics, stöðu okkar á markaði sem áfram felur í sér töluverð tækifæri fyrir Samskip Logistics.“

„Samningur DC Logistics Brasil og Samskipa styður við stefnu beggja fyrirtækja, um aukna þjónustu við viðskiptavini og að tryggja sveigjanleikann sem þarf til að geta boðið hagkvæmustu lausnirnar, ekki bara í Brasilíu, heldur á heimsvísu. Okkur finnst spennandi að hefja samstarf við jafn áhugavert fyrirtæki og Samskip eru og erum viss um að það styrki stöðu beggja fyrirtækja,“ segir Ivo A. Mafra, forstjóri DC Logistics Brasil.

AsbjornGislason_web

      Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskip Logistics