Samskip útrýma plasti á skrifstofum

Gert hefur verið stórátak til að draga úr plastnotkun vegna drykkjarfanga hjá Samskipum. Félagið hefur fram til þessa keypt að minnsta kosti 24 þúsund plastglös í hverjum mánuði ársins.

Þau voru notuð undir kaffi og vatn á kaffihúsum félagsins. Sömuleiðis hefur verið keypt umtalsvert magn af vatni, kolsýrðu og hreinu, í flöskum. 

Nú er öldin önnur. Plastglös eru ekki lengur notuð hjá félaginu og innkaupum á vatni hefur sömuleiðis verið hætt, um leið og hvatt er til drykkju á kranavatni. Í stað plastmála eru komnir bollar og glös úr gleri.

Aðgerðin er hluti af stefnu félagsins í átt til aukinnar samfélagsábyrgðar; með minni úrgangi, aukinni endurvinnslu og minna kolefnisspori. Félagið hefur sett sér markmið í þessum efnum og er eitt þeirra íslensku fyrirtækja sem á sínum tíma skrifaði undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum.

Myndatexti:
Oddný Friðriksdóttir er ánægð með að leggja umhverfinu lið
um leið og kaffið er drukkið úr alvöru bolla í stað plastmálsins áður