Sumarið er tíminn

Vísbendingar eru um að vætutíð sem plagað hefur hluta landsmanna í sumar hafi haft áhrif á vöruflutninga um landið. Starfsfólk Samskipa þekkir af reynslunni hvernig magn flutnings til og frá Reykjavík eykst gjarnan á sumrin. Eftirgrennslan nú leiðir í ljós að flutningur frá Reykjavík síðustu mánuði hefur verið meiri en á sama tíma í fyrra, á meðan flutningur til Reykjavíkur er heldur minni.

Freistandi er að draga þá ályktun að landsmenn og ferðamenn hafi streymt út á land í leit að betra veðri.

Sölutölur ÁTVR, sem Morgunblaðið fjallaði um fyrr í sumar, virðast renna stoðum undir slíkar vangaveltur, að á Suðvesturlandi sé bjórneysla í rigningunni í minni, á meðan áfengissalan var meiri í sólinni á Austurlandi. Þá var nýverið frá því greint í Morgunblaðinu að metaðsókn hafi verið á tjaldsvæði fyrir austan, á meðan sögulega fáir hafi hamsótt tjaldsvæði á Suður- og Vesturlandi.

„Jú, við erum eitthvað að reyna að lesa í þetta og velta því fyrir okkur hvað valdi því að flutningur út á land er heldur meiri í sumar en í fyrra,“ segir Ingi Þór Hermannsson, forstöðumaður í innanlandsdeild Samskipa. „En það er erfitt að fullyrða nokkuð um þetta.“

Ingi Þór bendir á að þótt veðrið hafi ekki verið með besta móti á Suðvesturhorninu í sumar, þá sé það nú samt svæðið sem erlendir ferðamenn eru helst sagði sækja. Um leið berist fregnir í þá veru að landinn sóli sig í útlöndum sem aldrei fyrr.

„Tölurnar sýna okkur hins vegar að það er dálítill vöxtur í flutningum út á land,“ segir hann. „Þar gæti veðrið verið einn af áhrifavöldunum.“