Þurfa að vera allsherjar reddarar í landi

Stöðugur vöxtur hefur verið í komum skemmtiferðaskipa til Íslands síðustu ár. Guðmundur Arnar Óskarsson, forstöðumaður flutningastjórnunardeildar Samskipa á Íslandi, sem annast þjónustu við skemmtiferðaskip, segir að frá árinu 2013 hafi viðkomur skemmtiferðaskipa hér nálægt því þrefaldast, farið úr 235 í 620 á síðasta ári. „Og farþegum búið að fjölga úr 208 þúsund í 402 þúsund.“ Sem samsvarar ríflega 93% fjölgun ferðamanna sem hingað koma með skemmtiferðaskipum frá árinu 2013.

 

Úr tölunum segir Guðmundur um leið mega lesa hvernig hlutur smærri farþegaskipa, svokallaðra Goleiðangursskipa hafi aukist, því farþegar séu færri í hverri viðkomu. „Þeir voru 947 í hverri viðkomu 2013, en er nú komnir í 650.“

Landsbyggðin sækir á hvað komu skemmtiferðaskipa varðar, en leiðangursskipin koma oft víðar við en í stóru viðkomustöðunum, sem eru Reykjavík, Ísafjörður og Akureyri. „Stóru útgerðirnar fara yfirleitt alltaf á þessa þrjá staði og stefnir í að Akureyri verði jafn stór Reykjavík hvað varðar viðkomur skemmtiferðaskipa. Þessi leiðangursskip fara meira inn á minni hafnir út um land og hafa fleiri viðkomur, svo sem á Djúpavogi, smærri plássum á Vestfjörðum eða Flatey.“

Leggja áherslu á stóru skipin

Guðmundur segir Samskip hafa lagt áherslu á þjónustu við stærri farþegaskipin. „Viðskiptavinir okkar eru nær einvörðungu stórar útgerðir, bæði frá Evrópu og Ameríku.“ Þessi skip sigli aðallega á Reykjavík, Akureyri og Ísafjörð, en á þeim stöðum séu Samskip með þjónustu við þau. „Og ef maður horfir á tölurnar hjá okkur í ár þá eru viðkomur jafnmargar á Akureyri og í Reykjavík.“ Fyrsta skip sumarsins segir hann hafa komi föstudaginn 25. maí, en tímabil skemmtiferðaskipanna vari alla jafna frá því í maí og fram í október. „Núna eru síðustu bókuðu farþegaskipin að koma í september.“

Þjónusta Samskipa við skemmtiferðaskipin er margþætt og umfangsmikil, segir Guðmundur. Fyrsta verk sé að bóka fyrir þau bryggupláss, en ferðir þeirra eru skipulagðar og seldar langt fram í tímann. „Það er svolítið síðan við byrjuðum að bóka árið 2020, en almennt séð er þetta unnið svona tvö ár fram í tímann. En þegar skipin koma til landsins þá er það mikilvægasta að þau geti lagst upp að bryggju og farþegar komist hratt og örugglega frá borði.“ Til þess að tryggja að allt gangi snurðulaust eru umboðsmenn Samskipa í samskiptum við tilheyrandi yfirvöld, svo sem tollgæslu og landamæravörslu, lögreglu ef þarf og Landhelgisgæsluna. „Þetta er misflókið eftir því hvort skipin eru að koma frá landi innan eða utan Schengen-svæðisins.“

Eru fulltrúa skipanna í landi

Þegar skipin eru hingað komin segir Guðmundur svo taka við aðstoð við hvaðeina sem komið geti upp og þar sé nánast allt undir, enda skipin svo stór og farþegar svo margir að helst má líkja því við fljótandi bæjarfélag. „Mörg taka þau kost hérna,“ segir hann, en bætir við að stærri útgerðirnar flytji gjarnan inn kostinn sinn og kaupi lítið af matvælum hér innanlands. „En oft kaupa þau eitthvað ef fylla þarf upp á.“ Þá þurfi stundum að útvega varahluti og aðstoða vegna viðgerða.

Eins er algengt að aðstoða þurfi við að koma farþegum til tannlæknis og dæmi eru um að einhverjir þurfi á spítalavist að halda. „Við höfum þurft að leysa menn úr fangelsi og aðstoða við að koma úr landi líki hafi gestur látist um borð. Umboðsmenn eru náttúrlega fulltrúar skipanna á landinu og sjá um samskipti við yfirvöld og annað, og svo eru þeir allsherjar reddarar vegna hvers sem upp á getur komið.“

Kláraði ferðina

Í stóru samfélagi um borð í skemmtiferðaskipunum geti líka eitt og annað gerst, bæði um borð og eins þegar stoppað er í landi. Þannig hafi aukist að skip stöðvi næturlangt í Reykjavík og því fjölgað möguleikum gesta og áhafnar á að kynna sér næturlífið. Stundum sé meðalaldur um borð í hærra lagi og algengt að gestir þurfi á einhverri heilbrigðisþjónustu að halda og fyrir komi að aldraðir gestir gefi upp öndina á ferðalagi sínu. „Og misjafnt hvað við þurfum að hafa mikla aðkomu að því. Það er heilmikil skriffinnska og umstang sem fylgir því að búa lík til sendingar úr landi, en ég man þó eftir einu skipti þar sem kom svolítið á óvart hvað við sluppum billega frá því.“ Þá höfðu eldri hjón farið í ferð í tilefni af gullbrúðkaupi sínu, búin að vera gift í 50 ár. Á siglingu skipsins til Íslands deyr hins vegar karlinn.

„Menn frá okkur fara um borð og það stefndi allt í að koma þyrfti líkinu heim og konunni frá borði, kalla til lækni, fá útgefið dánarvottorð, láta innsigla kistu, og fá allt stimplað og uppáskrifað. En gamla konan sagði að þau hjónin hafi lengi skipulagt þessa ferð og safnað fyrir henni og hún ætlaði bara að klára ferðina. Gamli maðurinn var því bara settur í geymslu um borð á meðan ferðin var kláruð og þau komin heim aftur.“ Hér hafi því ekki orðið sama umstang og í stefndi. „En þetta er eina skiptið sem við höfum lent í þessu. Hún var mjög hörð á þessu gamla konan.“

Farþegaskip héldu sínum hlut

Þótt heilt yfir sé meðalaldur gesta skemmtiferðaskipa hár þá segir Guðmundur það vera að breytast. Bæði hafi verð á ferðum sem þessum lækkað og svo beini útgerðir skipanna í auknum mæli sjónum sínum að örum markhópum. Til dæmis hafi Aida Cruise beint sjónum sínum að fjölskyldufólki og yngra fólki.

„Skemmtiferðaskipin eru meira að færa sig yfir í þann geira og ég veit um eitt félag sem ætlar að smíða sérstakt partískip fyrir yngsta liðið, þar sem hvorki börn né gamalmenni verða leyfð um borð. Þannig að þau eru að þróa sig og útvíkka markhópinn sinn.

Guðmundur segir því ljóst að áfram séu tækifæri tengt skemmtiferðaskipum og þjónustu við þau. „Í hruninu dróst allt saman, nema útgerð farþegaskipa. Og síðan þá hefur bara orðið aukning á þessari tegund ferða á heimsvísu.“

Crown

Crown Princess á Akureyri.