Umfangsmikill útflutningur

Það er sjaldan dauður tími hjá starfsfólki útflutningsdeildar Samskipa. Útflutningur sjávarafurða er ofarlega í hugum margra þessa dagana. Gunnar Kvaran, forstöðumaður útflutningsdeildarinnar, segir afar mikilvægt að viðhalda gæðum vörunnar þannig að fiskurinn komist sem verðmætastur á leiðarenda

 

„Við tókum á dögunum í notkun nýja aðstöðu fyrir ferskan fisk sem viðskiptavinir okkar kunna vel að meta enda hefur öll aðstaða okkar við meðhöndlun á ferskfiski breyst töluvert. Innan skamms munum við síðan taka í notkun nýja móttöku og hýsingu fyrir saltfisk en þessa dagana er makríllinn fyrirferðamikill hjá okkur,” segir Gunnar.

 

Skipulag og útsjónarsemi

Makríkvótinn í ár er 170 þúsund tonn „og það skiptir miklu máli að flotinn nái að veiða það sem í boði er og koma aflanum frá sér sem fyrst. Það þarf töluverða skipulagningu og útsjónarsemi til þess að útflutningur sjávarafurða gangi snurðulaust fyrir sig. Innflutningur er mikill um þessar mundir og við verðum að sjá til þess að hér séu alltaf til gámar sem henta fyrir sjávarafurðirnar, réttu kæli- eða frystigámarnir. Við þurfum því að tryggja að ávallt komi nægilegt magn þeirra gáma til landsins svo unnt sé að koma fiskinum utan þar sem hann fer ýmist beint á markað eða hefur viðdvöl í frystigeymslum okkar ytra.”

 

Gunnar segir að aldrei verði hlé á útflutningi sjávarafurða hjá Samskipum. „Gera má ráð fyrir því að makrílvertíðin standi fram í september. Þá hefst nýtt kvótaár með bolfiskveiðum fram yfir áramót. Þá tekur loðnuvertíðin við og stendur fram í mars. Grálúða og karfi eru áberandi hjá okkur í apríl og maí, eða þar til markrílvertíðin hefst að nýju.”

 

Lífið er meira fiskur

Elkem, járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, er einn af stærstu viðskiptavinum Samskipa bæði hvað varðar út- og innflutning. „Áætlunarskip okkar hafa vikulega viðkomu þar og frá árinu 2013 hafa Samskip verið með reglubundnar siglingar með ströndinni sem er afar góður kostur fyrir útflytjendur á landsbyggðinni sem í gegnum siglingakerfi okkar hafa beinan aðgang að mörkuðum í Evrópu.  Hlutdeild okkar í útflutningi frá landsbyggðinni hefur aukist að undanförnu sem er mjög ánægjulegt. Með strandsiglingunum getum við bæði boðið upp á meiri þjónustu en um leið sveigjanleika sem lýsir sér í því að við getum auðveldlega bætt við höfnum og fjölgað eða fækkað viðkomum eftir eftirspurn á hverjum stað og hverjum tíma. Húsavík er gott dæmi um slíkt en bærinn bættist nýverið inn á áætlun okkar, aðra hvora viku, en þar er mikil uppbygging framundan. Við erum þegar með töluverðan innflutning til Húsavíkur sem tengist framkvæmdunum en þar er einnig útgerð og fiskútflutningur sem við getum auðveldlega sinnt,” segir Gunnar.

 

Í útflutningsdeildinni starfa fimm viðskiptastjórar auk Gunnars. „Við erum þrír sem sinnum fyrst og fremst sölu, heimsóknum til viðskiptavina og samningum, en þrír starfsmenn sinna almennum þjónustustörfum. Fjórir starfsmenn sinna tekjuskráningu, tekjueftirliti og reikningsgerð í teymisvinnu. Þá er ónefndur einn starfsmaður sem hefur með höndum kostnaðareftirlit og skýrslugerð jafnframt því að sinna tveimur stórum viðskiptavinum,“ segir Gunnar Kvaran, forstöðumaður útflutningsdeildar Samskipa.