Útflutningur klár fyrir loðnuna

Nú er loðnuvertíðin byrjuð þó að hún fari hægt af stað og það þýðir annríki hjá útflutningsdeildinni.  

Loðnukvótinn er gefinn út fyrir eitt ár í senn og þetta árið er hann 95 þúsund tonn sem er umtalsverð lækkun frá 2015 þegar hann var 400 þúsund tonn.  Loðnuvertíðin skiptir miklu máli fyrir þjóðarbúið en gera má ráð fyrir að útflutningsverðmæti útgefins kvóta nemi nokkrum milljörðum króna.
Eins og með aðra geira, ætla Samskip að ná í vænan skerf af flutningi á loðnu, en það gerist ekki sjálfkrafa, heldur krefst það mikillar undirbúningsvinnu og þéttrar samvinnu með bæði birgjum og viðskiptavinum.  Árlega þarf að semja við erlendar skipalínur sem sigla frá Rotterdam til Asíu, en þangað er loðnan flutt í frosin í gámum, nánar tiltekið á Japansmarkað.  Ekki er nóg að semja um hagkvæmt verð fyrir flutninginn, heldur þarf einnig að tryggja stöðugt streymi frystigáma því enginn verður flutningurinn ef ekki eru til viðeigandi gámar.
„Góð tengsl við viðskiptavini eru nauðsynleg í þessu ferli, því kaupendur frá Japan koma til viðskiptavina okkar og skoða loðnuna og kaupa hana ekki fyrr en hún stenst þeirra kröfur, m.a. um hrognafyllingu“ segir Gunnar Kvaran í útflutningsdeildinni.  „Við verðum því að vera klár með gáma þegar kallið kemur“ bætir hann við að lokum.
Nú vonum við bara að hún láti sjá sig!