Farmvernd

Leiðbeiningar, hugtök og almennar upplýsingar


Tollstjórinn í Reykjavík setur reglur um farmvernd. Hann sér um útgáfu eyðublaða vegna farmverndaryfirlýsinga og annarra gagna vegna farmverndar auk farmverndarinnsigla. Markmið farmverndarráðstafanna er að hindra að hvers kyns hættuleg efni, vopn og tæki sem nota má til að ógna mönnum, skipum eða höfnum og ekki hefur verið veitt sérstök heimild til flutnings, komist inn á hafnarsvæði eða um borð í skip.

Skilgreiningar á hugtökum

Farmverndarfulltrúi: Starfsmaður vottaðs útflytjenda, farmflytjenda, hafna og flutningamiðlara sem hafa fengið viðurkenningu tollyfirvalda til að gegna nánar tilgreindu hlutverki gagnvart farmvernd.

Vottaður farmflytjandi: Flutningafyrirtæki sem fengið hafa vottun tollyfirvalda til að flytja vörur innanlands og til útflutnings.

Farmverndarinnsigli: Innsigli er tollyfirvöld setja, eða láta setja, fyrir gáma vegna útflutnings.

Farmverndaryfirlýsing: Skjal sem fyllt skal út af útflytjanda eftir nánari reglum sem tollstjórinn í Reykjavík setur. Skjalið skal fylgja vöru að skipshlið.

Verndarfulltrúi: Starfsmenn hafna sem hafa verið viðurkenndir af Siglingastofnun til að sjá um öryggismál á hafnarsvæðum.

Hafnarsvæði: Svæði hafnar sem skilgreint er í hafnarskipulagi.

Hafnaraðstaða: Hægt er að útbúa eina eða fleiri hafnaraðstöður (port facility) innan hverrar hafnar/hafnarsvæðis samkvæmt skilgreiningu ISPS-kóðans. Hafnaraðstaða getur jafnframt verið haftasvæði.

Haftasvæði: Svæði þar sem aðgangur er takmarkaður. Haftasvæði getur jafnframt verið hafnaraðstaða. Haftasvæði getur einnig verið eitt eða fleiri svæði innan eða utan hafnaraðstöðu.

Farmverndarinnsigli

Allir vörugámar sem fermdir eru hér á landi til útflutnings skulu vera innsiglaðir með svokölluðu flöskuinnsigli.

 • Innsigli þessi eru flöskulaga og ekki þarf verkfæri við lokun þeirra.

 • Þau skulu bera hlaupandi númer, t.d. (IS-SCS 12121212).

 • Verði viðkomandi umsóknaraðili samþykktur fær hann nefnd innsigli afhent.

 • Innsigli þessi verða afhent hjá tollstjóranum í Reykjavík gegn gjaldi.

 • Aðilar sem hafa fengið afhent farmverndarinnsigli hjá tollstjóra skulu varðveita þau með öruggum hætti og gæta þess að þau týnist ekki eða með þau sé misfarið.

 • Halda skal skrá yfir þau innsigli sem notuð eru.

 • Ef rjúfa þarf innsigli eða þau skemmast skal það tilkynnt tollstjóra svo fljótt sem við verður komið.

 • Þau innsigli skulu jafnframt vera skráð með viðeigandi athugasemd.

 • Glatist innsigli skal tilkynna það tollstjóra með skriflegri greinargerð.

Farmverndaryfirlýsing - Lestaðir lokaðir gámar

 • Með hverjum útfluttum vörugám skal fylgja farmverndaryfirlýsing.

 • Eyðublað þetta er að finna á vef tollstjórans http://www.tollur.is/

Þegar viðurkenndur farmverndarfulltrúi útflytjanda hefur afhent verndarfulltrúa hafna eða farmverndarfulltrúa farmflytjanda lestaðan vörugám ásamt farmverndaryfirlýsingu þá telst ábyrgð sendingarinnar vera í höndum verndarfulltrúa eða farmflytjanda eftir atvikum.

Lestaðir óinnsiglaðir gámar

Ekki má flytja lestaðan vörugám óinnsiglaðan frá hleðslustað inn á haftasvæði farmflytjanda eða höfn. Komi vörugámur lestaður en óinnsiglaður á útflutningsstað skal verndarfulltrúi eða farmflytjandi sjá til þess að innihald verði kannað með fullnægjandi hætti og tilkynna viðkomandi tollyfirvaldi, áður en öryggisinnsigli verður sett á gáminn. Vörugámur sem hefur verið innsiglaður með farmverndarinnsigli skal tafarlaust fluttur á haftasvæði viðkomandi hafnar.

Heimilismunir

Bent er á pökkunarfyrirtæki og tollstjórann í Reykjavík hvað varðar vottun á flutningi heimilismuna. Samskip veita ráðgjöf hvað þetta varðar.

Útflytjendur er ekki hafa hlotið vottun

Útflutningsaðilar sem ekki hafa fengið viðurkenningu, skulu snúa sér til tollstjóra og tilkynna um væntanlegan útflutning.

Fyrirspurnir hvað varðar þessi mál berist til tollstjórans í Reykjavík eða tollembættis í viðkomandi umdæmi.

Lög um Farmvernd tóku fullt gildi í október 2004.

Rafrænn aðgangur að Farmvernd er á slóðinni: https://vefafgreidsla.tollur.is/farmvernd/

Aðstoð og upplýsingar vegna vefs farmverndar

Tollstjórinn í Reykjavík / Farmvernd
Héðinsgötu 10
105 Reykjavík
Vefsíða: http://www.tollur.is/

Frekari upplýsingar fyrir viðskiptavini Samskipa gefur öryggisstjóri:

Bergvin Þórðarson

bergvin_thordarson

Öryggisstjóri

Beinn sími: 458 8535

Gsm: 858 8535

bergvin.m.thordarson@samskip.com