Starfsemin

Samskip eru alþjóðlegt flutningafyrirtæki sem býður flutningalausnir og tengda þjónustu á landi, sjó og í lofti með hagkvæmni og sjálfbærni að leiðarljósi.

Samskip sem er með stærri flutningafyrirtækjum í Evrópu með um 668 milljónir evra í veltu á ári og starfsstöðvar í 26 löndum í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og Ástralíu.  Starfsmenn eru um 1.670 talsins um allan heim, ef NorLines er meðtalið.

Höfuðstöðvar Samskipa eru í Hollandi og frá stofnun þess á Íslandi árið 1990 hefur það stækkað hratt, bæði vegna innri vaxtar og kaupa á öðrum félögum.

Meginstarfsemi félagsins byggir á gámaflutningum í Evrópu, flutningum á Norður-Atlantshafi, hitastýrðum flutningum um allan heim ásamt flutningsmiðlun og stórflutningum í Evrópu.

Norður-Atlantshafið

Samskip bjóða upp á fjölbreyttar lausnir fyrir viðskiptavini í Norður-Evrópu.  Tíðar siglingar frá Íslandi og Færeyjum til Bretlands, meginlands Evrópu og Skandinavíu leggja grunninn að þjónustuframboði félagsins á svæðinu.  Frá því snemma árs 2013 hafa Samskip boðið upp á útflutning frá höfnum á landsbyggðinni beint á markaði erlendis og eru viðkomuhafnir nú Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri  og Reyðarfjörður, áður en haldið er til Kollafjarðar í Færeyjum, Hull á Bretlandseyjum og Rotterdam í Hollandi.  Leiðin færir landsbyggðina nær erlendum mörkuðum og býður hagkvæmari valkost fyrir inn- og útflytjendur.  Margvíslegir möguleikar í hýsingu, hvort sem um frystivöru eða almenna vöru er að ræða, ásamt öflugu dreifikerfi innanlands mynda saman heildarþjónustu við viðskiptavini.  Auk þess býður félagið upp á umboðsþjónustu og leiguskip til ýmissa verkefna og rekur ferjuna Sæfara, sem siglir frá Dalvík til Grímseyjar og Hríseyjar á Eyjafirði.

Gámaflutningar í Evrópu

Gámaflutningakerfi Samskipa í Evrópu, Samskip Multimodal, býður upp á flutninga um alla álfuna með skipum, lestum og bílum, allt eftir þörfum viðskiptavina hverju sinni.  Lögð er áhersla á hagkvæmar og áreiðanlegar lausnir fyrir viðskiptavini og notar félagið eigin tæki og búnað í kerfinu, allt frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi til Tyrklands og Mið-Asíu.

Fara á vef Samskip Multimodal

Hitastýrðir flutningar um allan heim

Hitastýrðir flutningar eru eitt af viðfangsefnum Samskipa og hefur félagið skipað sér stóran sess á markaðinum fyrir frystar og kældar afurðir.  Býður félagið upp á heildarþjónustu við flytjendur, m.a. sjófrakt, for- og framhaldsflutning, flutningsmiðlun, hýsingu og skjalagerð. Veitir reynslumikið starfsfólk ráðgjöf um hvernig best er að standa að flutningunum, enda oftast um vandmeðfarnar afurðir að ræða.  Á ári hverju flytja Samskip yfir milljón tonn af hitastýrðum afurðum um allan heim og gott dæmi er fiskútflutningur frá Íslandi til Evrópu og Asíu og flutningur á ávöxtum og kaffibaunum frá Suður-Ameríku til Evrópu.  Skrifstofur eru starfræktar í Evrópu, Asíu, Ástralíu og Norður- og Suður-Ameríku og er stærsta eining Samskipa sem sér um hitastýrða flutninga starfrækt undir merkjum Samskip Logistics.

Samskip reka frystigeymslur undir merki FrigoCare í Rotterdam í Hollandi og í Álasundi í Noregi, auk þess að reka frystigeymslur í Reykjavík og í Kollafirði í Færeyjum.

Auk þessa sinna Samskip flutningsmiðlun fyrir viðskiptavini um allan heim og bjóða upp á stórflutninga í Evrópu og Mið-Asíu.