Fræðslustarf Samskipa

Metnaðarfullt fræðslustarf er einn af lykilþáttunum í starfsemi Samskipa. Rík áhersla er lögð á að fræðsluferlið sé virkt og nái til allra starfsmanna.

Fræðsla skal vera hluti af framtíðaráætlun hvers starfsmanns og skal hann hafa möguleika til að auka við þekkingu sína og færni í núverandi starfi og afla sér þekkingar á nýjum sviðum.

Boðið er uppá markvissa fræðslu fyrir starfsmenn, s.s. sérsniðna fræðslu fyrir ákveðna hópa sem mótast af þörfum félagsins, löglega réttindafræðslu, söluhæfni, sjálfseflingu, mannleg samskipti, stjórnendafræðslu, tungumálanám og margs konar einstaklingsfræðslu.

Samskip hafa verið verðlaunuð fyrir framúrskarandi fræðslustarf en fyrirtækið fékk Starfsmenntaverðlaun Starfsmenntaráðs árið 2008 og var kosið Menntafyrirtæki atvinnulífsins árið 2014 af Samtökum atvinnulífsins.

Áhersla á starfsþróun

Samskip leggja áherslu á að starfsmenn þróist í starfi enda er það forsenda þess að fyrirtækið geti haldið áfram að stækka og styrkjast. Starfsfólkið þarf að vera vel að sér og skilja hvernig best er að framkvæma hlutina og taka ákvarðanir sem byggðar eru á faglegum skilningi á viðskiptavinum fyrirtækisins og þörfum þeirra.

Fræðslan skilar sér í hærra menntunarstigi fyrirtækisins, eykur starfsánægju og færni starfsfólks og skapar þannig verðmæti fyrir báða aðila.

Flutningaskóli Samskipa

Flutningaskóli Samskipa er sérhæfður skóli sem býður upp á tvíþætt fagnám og starfsnám í vöruflutningum og er hann starfræktur í samstarfi við Mími símenntun.  Flutningaskólinn er heildstætt, markvisst nám um flutninga á framhaldsskólastigi fyrir starfsfólk okkar sem hefur litla formlega menntun. Námskrá skólans er viðurkennd af menntamálaráðuneytinu til allt að 23 eininga í framhaldsskóla og tekur námið tvær annir.

Mentorkerfi Samskipa

Samskip leggja ríka áherslu á að taka vel á móti nýjum starfsmönnum. Starfrækt er markviss og samræmd móttaka nýrra starfsmanna þar sem ferlin, kerfin, verklag og menning fyrirtækisins er kynnt.  Reyndari starfsmenn taka að sér hlutverk Mentors og greiða nýliðum leiðina, í færni og félagslegri aðlögun.