Konur í sjávarútvegi kynntu sér Samskip

Vöruflutningur á sjó og landi er viðamikil starfsemi sem á sér margar hliðar, hvort sem það varðar tæknilega útfærslu eða markmið um lágmörkun umhverfisáhrifa og samfélagslega ábyrgð. Samskip veitir reglulega gestum innsýn í þessa starfsemi og áherslur fyrirtækisins, líkt og þegar ríflega fjörutíu konur frá Félaginu Konur í sjávarútvegi (KIS) heimsóttu fyrirtækið nýverið.

Samskip eru sterkt alþjóðlegt flutningafyrirtæki með traust tengsl við íslenskan sjávarútveg og sem slíkt áhugaverður staður fyrir Konur í sjávarútvegi að heimsækja. Auk þess að fá kynningu á starfseminni heimsótti hópurinn Ísheima, tæknivædda frystigeymslu Samskipa fyrir jafnt minni sem stærri farma frosinna afurða. Í Ísheimum er rúm fyrir allt að 6.500 tonn afurða og boðið upp á sérhæfða þjónustu við frysti- og fjölveiðiskip.

Þá var litið um borð í Helgafell, flutningaskip Samskipa, þar sem skipverjar voru í óða önn að undirbúa brottför og því mikið um að vera á hafnarsvæðinu.

„Okkur finnst mjög gaman að fá til okkar í heimsókn viðskiptavini, væntanlega viðskiptavini, félagasamtök og aðra og veita innsýn í starfsemi Samskipa. Þá er líka gaman að greina frá árangri sem náðst hefur og skrefum, svo sem er varða hagræðingu í rekstri, bætta verkferla og nýsköpun, auk umbóta í þjónustu við viðskiptavini,“ segir Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.

Hjá Samskipum er áhersla lögð á jafna stöðu kynjanna og markviss stefna til að koma í veg fyrir hvers konar mismunun og því fagnaðarefni að fá í heimsókn hóp frá KIS sem vinnur að því að efla konur í sjávarútvegi ýta undir tengingar og samstarf þeirra. „Afar ánægjulegt var að fá þarna tækifæri til að styrkja tengslin, veita innsýn í hvað við erum að gera og deila hugmyndum, því við erum ávallt til tals um hvernig við getum enn frekar stutt við íslenskan sjávarútveg,“ bætir Ágústa við.

Félag kvenna í sjávarútvegi var stofnað árið 2013 og hefur að markmiði að gera konur sýnilegri bæði innan sjávarútvegsins og utan hans og að fá fleiri konur til liðs við sjávarútveginn. Heimsókn félagsins til Samskipa var hluti af skipulögðum heimsóknum KIS til fyrirtækja í sjávarútvegi.