Samskip efla strandsiglingar – fleiri viðkomur og aukin þjónusta við landsbyggðina 

Á undanförnum vikum hafa umfjallanir um strandsiglingar á Íslandi verið mikið í fjölmiðlum. Ástæðan er sú að Eimskip tilkynnti um að hætta vikuferðum til hafna á Vestfjörðum og Norðurlandi, sem hefur vakið áhyggjur hjá hafnaryfirvöldum, sveitarfélögum og stjórnvöldum. Þau hafa bent á að sjóflutningar séu hagkvæmari, umhverfisvænni og tryggari leið fyrir þunga- og stóran farm en vegaflutningar. 

Í ljósi þessara breytinga sjáum við hjá Samskipum skýr tækifæri til að efla strandsiglingar og styrkja enn frekar tengingar við landsbyggðina. Í viðtali við Morgunblaðið segir Gunnar Kvaran, framkvæmdastjóri útflutnings hjá Samskipum, að hann sjái „eintóm tækifæri í stöðunni“ og að Samskip muni bregðast hratt við. 

Fleiri viðkomur og hagkvæmar lausnir 

Samskip muni fjölga viðkomum skipa til lykilhafna á landsbyggðinni. Á Suðurleiðinni svonefndu eru skipin Hoffell og Skaftafell, en í dag fara þau úr Reykjavík og norður fyrir land með fastri viðkomu á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Reyðarfirði. Samkvæmt þessu eru skipin inni aðra hverja viku á Ísafirði og Sauðárkróki. Ætlunin er sú að í framtíðinni verði þá viðkomur á Ísafirði og Sauðárkróki vikulegar. Þjónustan byggir á skipunum Hoffell og Skaftafell, en þau henta vel til strandflutninga á þunga- og þurrvöru og viðskiptavinir geta áfram treyst á flutning daglegra neysluvara og fersks fisks með bílum þegar það er hagkvæmara eða nauðsynlegt. Allt er þetta að sjálfsögðu undirorpið því að þörf á sjóflutningum til og frá þessum stöðum sé til staðar, en Gunnar Kvaran telur það vera eftir samtöl sín við stjórnendur fyrirtækja á þessum stöðum. 

Áhersla á sjálfbærni og hagkvæmni 

Strandsiglingar eru ekki aðeins mikilvægar fyrir öruggt vöruflæði, þær skipta einnig miklu máli fyrir umhverfið. Sjóflutningar losa mun minna kolefni en samsvarandi flutningar á vegum, og með því að nýta skipin betur getum við stuðlað að minni umferð þungaflutningabíla á þjóðvegum landsins. Þetta sparar kostnað, eykur öryggi á vegum og styrkir orkuskiptamarkmið Íslands. 

Traustur samstarfsaðili fyrir landsbyggðina 

Við hjá Samskipum höldum áfram að vera traustur samstarfsaðili fyrir atvinnulífið og samfélög á landsbyggðinni. Með auknum strandsiglingum getum við stutt við atvinnustarfsemi, tryggt reglubundið vöruflæði og boðið viðskiptavinum okkar áfram hagkvæmar, áreiðanlegar og sjálfbærar lausnir. 

Lesa fréttina á mbl.is