Kaup Samskipa á Nor Lines samþykkt

Norsk samkeppnisyfirvöld hafa samþykkt kaup Samskipa á norska skipafélaginu Nor Lines. Engar athugasemdir eru gerðar við kaupin og þau ekki talin hafa hamlandi áhrif á samkeppni á norska markaðnum.  

Samningur um kaupin var gerður í síðasta mánuði þar sem Samskip keyptu rekstur Nor Lines í þeim tilgangi að efla starfsemi félagsins í Noregi. Fjórum vikum síðar kemur niðurstaða norska samkeppniseftirlitsins.

„Þetta eru góðar fréttir, segir Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskip Logistics og bætir við að í Noregi liggi mikil tækifæri og getum við nú boðið viðskiptavinum okkar fjölbreyttara vöruframboð.“

Samskip hafa markvisst styrkt stöðu sína í Noregi undanfarin ár, bæði með innri vexti og kaupum á öðum félögum. Eftir kaupin á Nor Lines verða Samskip eitt af stóru flutningafyrirtækjunum í landinu.