Samskip kaupa starfsemi Nor Lines

Samskip hafa samið um kaup á rekstri norska skipafélagsins Nor Lines AS sem er í eigu DSD Group. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki norskra samkeppnisyfirvalda og er markmiðið með kaupunum að efla starfsemi Samskipa  á norska flutningamarkaðnum.  Velta Nor Lines er um 110 milljónir evra á ári eða 13 milljarðar íslenskra króna.

Nor Lines er flutningafyrirtæki með aðalskrifstofur í Stavanger. Félagið stundar strandsiglingar í Noregi og siglingar til Norður-Evrópu en býður auk þess margvíslega alþjóðlega flutningaþjónustu. Vikulegar siglingar eru allt frá Kirkenes í Norður- Noregi, meðfram norsku ströndinni til Hollands, Þýskalands og Póllands og frekari tengingar þaðan um allan heim.  Félagið rekur skipaafgreiðslur og vörumiðstöðvar víðsvegar í Noregi og þétt flutningsnet innan Noregs.  Um 170 starfsmenn starfa hjá félaginu og er félagið með eigin starfsemi á 14 stöðum í Noregi. Starfsemin verður áfram rekin undir vörumerki Nor Lines.

Veruleg aukning við skipaflotann

„Fyrirhuguð kaup munu skapa Samskipum mikil tækifæri,“ segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskip Logistics. „Við höfum verið í mikilli sókn á norska markaðnum undanfarin ár og erum að halda áfram þeirri sókn.  Starfsemi Nor Lines fellur einkar vel að starfsemi Samskipa, en með kaupunum munum við ná að bjóða upp á enn víðtækara þjónustuframboð til handa viðskiptavinum okkar og Nor Lines.“

Starfsemi Samskipa í Noregi hefur vaxið mikið undanfarin ár með innri vexti og kaupum á nokkrum félögum. Samskip flytja nú um 90.000 gámaeiningar á ári milli Noregs og Norður-Evrópu og er markmið kaupanna að auka flutningsmagnið enn frekar. Félagið FrigoCare sem er í eigu Samskipa rekur kæligeymslu og hafnaraðstöðu í Álasundi, mikilvægri miðstöð fyrir bæði gámaflutningakerfi Samskipa og flutningaskip Nor Lines. Samskip eiga  jafnframt 50% hlut í Silver Sea AS, sem rekur 14 frystiskip og er með aðsetur í Bergen. Heildar umsvif Samskipa eftir kaupin á Nor Lines munu styrkja stöðu félagsins verulega.   

„Við erum ánægð með að hafa gengið frá sölu Nor Lines og falið Samskipum reksturinn. Það hentar betur fyrir svona sérhæft fyrirtæki að vera hluti af stærri heild þar sem það fær tækifæri til að vaxa og dafna. Við teljum að Samskip verði gott heimili fyrir Nor Lines og að kaupin muni koma sér vel fyrir starfsmenn okkar og viðskiptavini,“ segir Ingvald Løyning, forstjóri DSD.

Skipin losa mun minna af koltvísýringi

Samskip eru ISO14001 vottað fyrirtæki og hafa hlotið margvísleg verðlaun fyrir sjálfbæra flutningastefnu. LNG-skipin Kvitnos og Kvitbjørn bætast nú við skipaflota Samskipa en þau voru hönnuð af Rolls-Royce Marine og afhent Nor Lines árið 2015. Skipin falla vel að sjálfbærri stefnu Samskipa, þau losa t.d. ekki köfnunarefnisoxíð (NOx) út í andrúmsloftið, lágmarka losun á brennisteinsdíoxíði (SOx) og losa 70% minna af koltvísýringi (CO2) á hvert flutt tonn á kílómetra heldur en vöruflutningabifreiðar. Skipin eru umtalsvert hagkvæmari þegar kemur að orkunýtingu í samanburði við skip sem brenna hefðbundinni skipaolíu.