Áframhaldandi vöxtur í innflutningi

Innflutningsdeild sinnir mikilvægu hlutverki í starfsemi Samskipa og okkur lék forvitni á að vita hvernig gengi.  Við röltum við hjá þeim og hittum fyrir Ottó Sigurðsson, forstöðumann deildarinnar, sem hefur starfað hjá Samskipum síðan á fyrri hluta árs 2013.

Aðspurður segir Ottó að innflutningur til landsins samanstandi af margvíslegum vörum, allt frá matar- og drykkjarvöru til byggingarvöru og stórra tækja.  Innflutningur hafi gengið vel það sem af er ári og það sé greinilegt að mikil fjölgun erlendra ferðamanna hafi áhrif á innflutning til landsins, t.d. hvað varðar matvöru og bíla.

„Okkur hefur gengið vel á árinu og höfum náð góðri nýtingu á okkar flutningakerfum sem er ánægjuefni, því við höfum aukið flutningsgetuna okkar síðustu misserin“ segir Ottó.  „Spár gera ráð fyrir áframhaldandi hagvexti og útlit er fyrir aukningu í innflutningi svo við erum bjartsýn á framtíðina.  Við þurfum að fylgjast vel með markaðinum og vera í góðum samskiptum við okkar viðskiptavini, það er lykilatriði“ heldur hann áfram.  „Við erum heppin því við eigum marga góða viðskiptavini sem við höfum þjónustað um árabil og erum með reynslumikið starfsfólk sem kann vel til verka“ bætir Ottó við.

Alls starfa sex í innflutningsdeildinni auk Ottós, viðskiptastjórar, sölufulltrúi og einn sérfræðingur og sjá þeir um tilboðs- og samningagerð við viðskiptavini auk ráðgjafar.  Viðskiptaþjónustan sér auk þess um afgreiðslu á beiðnum, reikningagerð og fleira og þar starfa átta starfsmenn og því er um að ræða fjórtán manna teymi sem sér til þess að þjónusta Samskipa við innflytjendur gangi sem best fyrir sig.

Við þökkum Ottó fyrir spjallið og óskum þeim félögum góðs gengis.