Gautaborg er ný viðkomuhöfn Samskipa

Frá og með apríl 2023 er Gautaborg ný viðkomuhöfn Samskipa í Svíþjóð í stað Varbergs áður. Gautaborg er stærsta gámahöfn Svíþjóðar og býður upp á góðar tengingar, bæði á sjó og á landi. Fyrsta viðkoma Samskipa í Gautaborg var miðvikudaginn 5. apríl.

„Okkur er mikið ánægjuefni að fá Gautaborg inn í net viðkomustaða okkar. Hafnarsvæðið er stórt og býður upp á fleiri möguleika í tengingum við aðra heimshluta, Þá er mjög öflug tenging við lestarkerfið í Svíþjóð og þannig auknir möguleikar tengdir bæði afhendingu og áframsendingu vöru. Þá aukast tækifæri viðskiptavina okkar til viðskipta í Svíþjóð, enda fjölmörg fyrirtæki með starfsemi í og í nágrenni borgarinnar,“ segir Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa á Íslandi.

Þjónustuaðili í Gautaborg er APM Terminals og vöruhúsaþjónustu þar fyrir Samskip annast fyrirtækið Mimab sem er með vöruhús alveg við hafnarsvæðið.

Frekari upplýsingar veitir:

Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður Markaðs- og samskiptadeildar Samskipa. thorunn.inga.ingjaldsdottir@samskip.com