Möguleikar íslensks sjávarútvegs á nýjum mörkuðum ráðast af hagkvæmni flutninga

Aðgangur að víðtæku neti flutninga er lykilatriði þegar kemur að því að vinna íslenskum sjávarafurðum nýja markaði. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Gunnars Kvarans, forstöðumanns útflutningsdeildar Samskipa, á Sjávarútvegsráðstefnunni 2017 í Hörpu 16. og 17. nóvember. Hann segir flutningskostnað skipta miklu máli þegar fyrirtæki taka ákvörðun um sókn á nýja markaði.

Framsaga Gunnars í Silfurbergi í Hörpu á föstudag var með yfirskriftinni „Geta víðtæk flutningskerfi aðstoðað við að opna nýja markaði fyrir sjávarafurðir frá Íslandi?“. Hann hefur í störfum sínum síðastliðinn áratug verið tengdur útflutningi á sjávarafurðum. „Ég hef séð nýja markaði opnast á meðan hægst hefur á öðrum eða þeir jafnvel lokast,“ sagði hann.

Öflugan sjávarútveg sagði Gunnar byggja á því að til staðar væri traust og gott flutningsnet til að koma afurðum á erlenda markaði. Hann tók sem dæmi um vel heppnaða samvinnu sjávarútvegs og flutningsfyrirtækja viðbrögðin við því að Rússlandsmarkaður lokaðist Íslandi sumarið 2015.

„Á þessum tímapunkti vorum við að undirbúa makrílvertíð sem var á fyrstu metrunum.“ Í kjölfarið hafi hafist mikil og spennandi vinna við að finna afurðunum nýja markaði, í samvinnu flutningsaðila og útflytjenda. Fyrirspurnum hafi rignt inn varðandi nýja og áhugaverða endastaði sem unnið hafi verið úr og þjónusta boðin. Vel hafi tekist að vinna úr þessari stöðu og finna afurðunum nýja markaði. „Það má segja að hagkvæmar flutningsleiðir séu lykilþáttur í því hvert selja skuli afurðir þar sem kostnaður við flutninginn er ákvörðunarþáttur sem skiptir oft á tíðum miklu máli.“

1Gunnar Kvaran flytur erindi sitt á Sjávarútvegsráðstefnunni 2017 í Hörpu, föstudaginn 17. nóvember. (Mynd/Samskip)

Gunnar sagði að magn útflutningsins hafi verið stöðugt undanfarin misseri, en að jafnaði séu flutt frá landinu í kringum 650 til 700 þúsund tonn. „Botnfiskur er nokkuð jafn milli ára þó einstaka tegundir fari upp og niður eins og gengur og gerist.“ Helstu breytingar síðustu ára séu tengdar uppsjávarfiski. „Þar má nefna sterkar loðnuvertíðir og þá sérstaklega 2002 til 2005 og makrílinn sem kemur inn í kringum 2009 og 2010.“ Fram kom máli Gunnars að bróðurpartur útflutnings sjávarafurða fari til Evrópu, eða 86%. Til Asíu fari 7%, Afríku 4% og Norður-Ameríku 3% miðað við tölur ársins 2016.