North Atlantic Row á næsta leiti
Nú eru einungis um tvær vikur þangað til ofurhugarnir leggja úr höfn frá Kristiansand í Noregi áleiðis til Orkneyja, Færeyja og Íslands, en þeir leggja af stað á þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí
Nú eru einungis um tvær vikur þangað til ofurhugarnir leggja úr höfn frá Kristiansand í Noregi áleiðis til Orkneyja, Færeyja og Íslands, en þeir leggja af stað á þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí. Eyþór Eðvarðsson, einn áhafnarmeðlima, leit við hjá okkur í Samskipum í vikunni og kynnti leiðangurinn fyrir starfsfólki.
Mátti finna spennu og ákafa í loftinu þegar hann lýsti verkefninu, bátnum, leiðinni og öllum þáttum undirbúningsins, sem hefur verið langur og strangur. Eftirvæntingin að komast af stað er greinilega orðin mikil. Verkið verður vandasamt og erfitt, en um leið mikil áskorun fyrir þá félaga, sem munu afkasta sem nemur átta hálfmaraþonum á sólarhring og brenna um sjö þúsund hitaeiningum á degi hverjum á meðan róðrinum stendur.
Starfsfólk Samskipa styður strákana af fullum krafti og klæddist gulum, glæsilegum bolum þeim til heiðurs.
Við hvetjum alla til að fylgjast með leiðangrinum á vefnum þeirra http://www.northatlanticrow.com/ og á Facebook síðu þeirra en þar er einnig að finna mikinn fróðleik um þennan merkilega leiðangur.