Nýsköpunarverkefni í orkuskiptum fær 1,4 milljarða króna í styrk frá ESB

Orkuskiptaverkefnið WHISPER hefur hlotið 1,4 milljarða króna styrk til fjögurra ára frá Evrópusambandinu. WHISPER er fjölþjóðlegt samstarfsverkefni en íslensk fyrirtæki eru þar í meirihluta. Verkís verkfræðistofa leiðir verkefnið og aðrir íslenskir þátttakendur eru fyrirtækin SideWind, Samskip, BBA//FJELDCO og Athygli.

Verkefninu er ætlað að þróa og prófa nýsköpunarlausnir í orkuskiptum á sjó sem geta dregið verulega úr losun gróðurhúsaloftegunda hjá flutningaskipaflota heimsins.

Lausnirnar felast í endurbótum á flutninga- og tankskipum sem eru nú þegar í rekstri (e. retrofit solutions). Þær felast í fyrsta lagi í blandaðri sólar- og vindorkutækni (e. Wind Solar Hybrid Power System) þar sem láréttar vindmillur SideWind og sérhannaðar sólarorkusellur framleiða raforku fyrir innri orkunotkun skipanna. Í öðru lagi verða þróuð rafstýrð segl sem hjálpa til við að knýja skipin áfram (e. Wind Assisted Propulsion System). Samhliða verður einnig unnið að geymslulausnum fyrir rafmagn.

Gangi áætlanir eftir er talið að hægt verði að draga úr eldsneytisnotkun tankskipa um tæp 30% og gámaskipa um að minnsta kosti 15%. Um 80-90% vöruflutninga í heiminum eru með flutningaskipum og fara vaxandi. Skipaflutningar losa 2,5% gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Því er til mikils að vinna og getur verkefnið haft mikið að segja þegar kemur að orkuskiptum á sjó.

Byr í segl SideWind

Samstarfsverkefnið byggir að hluta á vindorkulausn SideWind fyrir flutningaskip. Fyrirtækið var stofnað af hjónunum Maríu Kristínu Þrastardóttur og Óskari Svavarssyni árið 2019 og hefur vakið mikla athygli hérlendis.  „Það er nokkuð hröð þróun að fara á fjórum árum frá hugmynd við eldhúsborðið að evrópsku samstarfsverkefni sem nemur yfir níu milljónum evra, en við erum mjög spennt fyrir þeirri vinnu sem framundan er og hvað hún getur haft að segja fyrir baráttuna gegn loftslagsvánni,“ segir María.

Íslenskt einkafyrirtæki leiðir Evrópuverkefni

Evrópusambandið gerir miklar kröfur um reynslu og faglega verkefnastjórnun í verkefnum af þessari stærðargráðu. Fá íslensk einkafyrirtæki hafa tekið slíkt að sér en Verkís mun bæði leiða WHISPER verkefnið og sjá um tæknilega verkefnastjórnun, vistferilsgreiningar og loftaflfræðilegar hermanir. „Við erum stolt að hafa verið valin til að stýra þessu spennandi nýsköpunarverkefni. Það fellur vel að áherslum okkar um orkuskipti, sjálfbærni og nýsköpun og það skiptir líka máli að íslensk fyrirtæki taki þátt í þeirri þróun sem á sér stað erlendis á þessum vettvangi,“ segir Kjartan Due Nielsen, verkefnastjóri nýsköpunar hjá Verkís.

Evris eflir íslenska nýsköpun
Að verkefninu stendur öflugt og fjölbreytt teymi 14 fyrirtækja í fimm Evrópulöndum og var umsóknarferlinu, sem var bæði flókið og umfangsmikið, stýrt í gengum íslenska fyrirtækið Evris. „Fundum okkar Óskars og Maríu hjá SideWind bar fyrst saman í upphafi árs 2019 og mér varð strax ljóst að þau væru með hugmynd sem ætti erindi á alþjóðlega markaði. Það hefur verið gefandi að fá að leiða þetta spennandi verkefni, í samstarfi við félaga mína hjá Inspiralia, í gegnum umsóknarferli Evrópusambandsins og setja saman hóp sem uppfyllir kröfur um þekkingu og reynslu sem Evrópusambandið gerir til verkefna af þessari stærðargráðu,“ segir Anna Margrét Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Evris. Hún hefur verið í samstarfi við alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Inspiralia Group frá árinu 2016 og hefur samstarfið skilað miklum fjármunum og þekkingu inn í íslenskt nýsköpunarumhverfi.


Þátttökufyrirtækin í WHISPER verkefninu eru: Verkís, SideWind, Samskip, BBA//FJELDCO og Athygli frá Íslandi; Canoe, Ayro og Stirling Design International frá Frakklandi; Solbian, Ant Topic og Dotcom frá Ítalíu; Nav-Tech frá Hollandi; Lloyds Register frá Bretlandi og Inspiralia GmbH frá Austurríki.