Samskip fordæma ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

Samskip hafna niðurstöðu rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á ætluðu samráði Eimskips og Samskipa á árunum 2006 til 2013. Ályktanir um víðtækt og þaulskipulagt samráð eru með öllu tilhæfulausar og úr tengslum við gögn og staðreyndir. Samskip fordæma vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins við rannsóknina og hyggjast fá niðurstöðunni hnekkt.

Starfsemi Samskipa hefur ávallt grundvallast á samkeppni á öllum mörkuðum og félagið leiðandi í að skapa virka samkeppni og hagkvæmar lausnir í flutningum og tengdri þjónustu. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins einkennist af hálfsannleika, villandi framsetningu og rangfærslum.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins hefur að grunni til staðið frá árinu 2010. Ráðist var í húsleitir hjá Samskipum og Eimskipi á árunum 2013 og 2014 og hald lagt á mikið magn gagna. Frá húsleit 2013 eru liðin tíu ár. Kenningar og ályktanir Samkeppniseftirlitsins urðu svo fyrst ljósar þegar fyrirtækjunum var birt andmælaskjal í tveimur hlutum um ætluð samráðsbrot. Fyrri hluti skjalsins var birtur 6. júní 2018 en sá síðari 13. desember 2019. Voru þá liðin sex ár frá húsleit og nær tíu ár frá upphafi rannsóknar. Undir lok nóvember 2020 bættist svo við þriðja andmælaskjalið og skiluðu Samskip athugasemdum í janúarbyrjun 2021.

Samanlagt voru andmælaskjölin á þriðja þúsund blaðsíður og fylgiskjöl skiptu tugum þúsunda. Samskip skiluðu ítarlegum efnislegum athugasemdum við andmælaskjölin og sýndu fram á að frumniðurstöður Samkeppniseftirlitsins væru í grundvallaratriðum rangar. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins og ákvörðun um sektargreiðslur lá svo fyrir nú 31. ágúst. 

Fyrir liggur að Eimskip lauk málinu með sátt við Samkeppniseftirlitið í júní 2021, þrátt fyrir að hafa áður haft uppi hörð andmæli gegn málsmeðferð og efnislegum ályktunum Samkeppniseftirlitsins. Samskip telja ljóst að ákvörðun Eimskips hafi ekki byggt á efni málsins heldur mati nýrra stjórnenda félagsins á því hvað væri farsælast fyrir rekstur þess næstu árin. Umhugsunarefni er ef ráðandi fyrirtæki á markaði getur með þessum hætti notað digra sjóði til að kaupa það frá frekari málsmeðferð. Þá er alvarlegur hlutur ef löng og þung málsmeðferð og miklar valdheimildir eftirlitsstjórnvalda geta orðið til þess að fyrirtæki kjósi heldur að játa sök og greiða sekt, án þess að efni séu til, en að leiða hið rétta og sanna í ljós fyrir æðra stjórnvaldi eða dómstólum.

Vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins í málinu eru Samskipum mikil vonbrigði. Málsmeðferðin hefur verið einstaklega þung og haft lamandi áhrif á starfsemi og starfsfólk Samskipa. Stofnunin hefur farið offari við rannsókn málsins og gagnaöflun og hefur nú komist að niðurstöðu sem ekki er í nokkrum tengslum við raunveruleikann. Settar eru fram kenningar og ályktanir um brot án þess að beinum sönnunargögnum sé til að dreifa. Kenningum hefur verið fundin stoð með því að fara beinlínis rangt með efni gagna eða staðreyndir máls eða með augljósum rangtúlkunum.

Samskip munu ekki una niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og mun félagið leita allra úrræða sem því eru tæk að lögum til að fá henni hnekkt. 

Frekari upplýsingar veita:

Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, í síma 858-8150 eða með tölvupósti á netfangið thorunn.inga.ingjaldsdottir@samskip.com.  

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Samskipa, í síma 820-4608 eða með tölvupósti á netfangið hordur@law.is.