Samskip gefa tölvur til Sierra Leone

Fyrr í þessum mánuði sendum við 36 notaðar en yfirfarnar borðtölvur, 17 fartölvur og 12 skjái ásamt lyklaborðum til Sierra Leone. Velgjörðarsjóðurinn Aurora Foundation hafði milligöngu um gjöfina.

Í Sierra Leone er tölvueign mjög langt frá því að vera almenn og því eru tækifæri fólks til að öðlast tölvufærni afar takmörkuð. Þetta hrjáir ungt fólk sérstaklega og stendur samfélaginu fyrir þrifum við uppbyggingarstarf og Aurora Foundation mætir þessari þörf með mjög vinsælum tölvunámskeiðum fyrir þennan hóp landsmanna.  

Fyrir um 11 árum stofnuðu hjónin Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir velgjörðasjóðinn Aurora Foundation og er hlutverk sjóðsins að styðja við þróun og menningu. Sjóðurinn hefur síðustu ár einbeitt sér að hjálpar- og uppbyggingarstarfi í Sierra Leone en landið er enn að græða sárin eftir harðvítuga borgarastyrjöld sem geisaði þar frá 1991 til 2002. Fæstir vita að Sierra Leone er eitt verst stadda land heims og því er unnið mikilvægt starf þar sem miðar að því að bæta lýðheilsu og atvinnutækifæri auk annarra verkefna. 

Hér er hægt að skoða myndir frá síðustu sendingu Samskipa til Sierra Leone og nánari upplýsingar um velgjörðarsjóðinn: https://aurorafoundation.is/en/free-ict-training-in-sierra-leone/