Samskip hafa stutt Fiskidaginn frá upphafi

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli fer fram á Dalvík um komandi helgi. Líkt og áður styðja Samskip á margvíslegan máta við hátíðahöldin.

„Við höfum verið með frá upphafi, þegar fyrst var leitað til okkar,“ segir Óskar Jensson, sölustjóri í innanlandsdeild Samskipa á Akureyri. Hann er öllum hnútum kunnugur, Dalvíkingur sjálfur og þekkir bæði aðkomu Samskipa og undirbúning sjálfs Fiskidagsins, þar sem hann var áður í stjórn.

Þegar hugmyndin um fiskidaginn kviknaði fyrst og leitað var stuðnings við hana óraði væntanlega fáa fyrir því hversu vinsæl hátíðin ætti eftir að verða. „Þetta var náttúrlega dálítið brjáluð hugmynd, að bjóða öllu landinu í mat og hafa það þannig að enginn þyrfti að taka upp veskið,“ segir Óskar, en aldrei hefur verið rukkað fyrir aðgang að hátíðinni, hvorki mat né skemmtiatriði.

Hátíðin er landsmönnum að góðu kunn, enda ófáir sem sótt hafa Dalvíkurbyggð heim helgina eftir verslunarmannahelgi til að samgleðjast heimafólki á Fiskideginum mikla. Fiskisúpukvöldið er á föstudeginum og á laugardeginum fer fram skemmtidagskrá sem endar um kvöldið með stórtónleikum og flugeldasýningu.

Samskip flytja og hýsa obbann af matvælum, frystivöru, fyrir hátíðina, auk sviðsbúnaðar og tækja sem notuð eru á svæðinu. „Síðan vinnum við á hátíðarsvæðinu við undirbúning og á meðan á hátíðinni stendur, svo sem við uppsetningu á skjólvegg úr gámum við Hafnarvogina þar sem stóra útigrillið er og svo geymum við fiskasýninguna, sem þarf að vera frosin fram að sýningu og göngum svo frá henni aftur á eftir.“

Þá segir Óskar Samskip hjálpa til við að afmarka götur og hátíðarsvæði með tækjum, bílum og flutningavögnum, auk þess að aðstoða við uppsetningu á smærra sviðnu sem notað er á sjálfan hátíðardaginn. Umfangið og aðsóknin aukist svo bara ár frá ári. „Enda er þetta eina hátíðin sem aldrei hefur séð rigningu á hátíðinni sjálfri. Þá er ég að tala um Fiskidaginn frá tíu til fimm þegar sjálf hátíðinn stendur. Á þeim tíma hefur aldrei fallið dropi í öll þessi ár.“

Óskar segir að Samskip leggi til sex til sjö flutningabíla yfir hátíðardaginn og um tuttugu gáma, auk þess sem fyrirtækið láni gáma til annarra fyrirtækja sem vanti aukið kælirými eða pláss fyrir vörur. „Svo eigum við ísgræjur og afhendum ís þeim sem óska, enda veisluhöld í öllum heimagörðum í bænum.“ Flutningur tengdur deginum sjálfum giskar hann á að fylli einhverja tuttugu gáma, aðbúnaður, tæki, matvæli og hvað eina annað.

Fiskidagurinn mikli fer nú fram í átjánda sinn, en allar upplýsingar um hátíðina er að á vefnum www.fiskidagurinnmikli.is og á Facebook-síðunni www.facebook.com/fiskidagurinnmikli.is

Fiskidagurinn

 

Allar upplýsingar um bæjarhátíðina er að finna á vefnum www.fiskidagurinn­mikli.is og Facebook-síðunni https://www.facebook.­com/fiskidagurinnmikli.is/