Samskip hjálpa Sælukoti og flytja fatnaðinn til Lesbos
Íslendingar brugðust vel við fatasöfnun leikskólans Sælukots fyrir flóttafólk frá Sýrlandi sem nú býr við kröpp kjör og bágar aðstæður á eyjunni Lesbos við Grikklandsstrendur.
Eins og fram hefur komið í fréttum safnaðist mun meira af fatnaði en gert var ráð fyrir. Samskip hafa því ákveðið að leggja söfnuninni lið með því að koma allt að 1000 kg af fatnaði til Lesbos, eins fljótt og auðið er, enda þörfin brýn.
„Fatnaðinum verður komið fyrir í gám sem fer með Arnarfellinu næstkomandi fimmtudag áleiðis til Rotterdam. Þar taka félagar okkar við, setja á trukk sem ekið er sem leið liggur til Grikklands. Vonandi líða ekki margir dagar þar til hlý föt og góðar fyrirbænir ylja flóttafólkinu á Lesbos“ segir Anna Guðný Aradóttir markaðs og samskiptastjóri Samskipa.