Skemmtilegt frumkvöðlaverkefni! Vindmyllugámar Sidewind styðja við umhverfismarkmið Samskipa

Í apríl hófust fyrstu mælingar tengdar rannsóknarverkefni Sidewind um borð í Helgafelli, flutninga­skipi Samskipa. Sidewind er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem vinnur að þróun umhverfisvænna lausna fyrir flutningaskip og nýtur stuðning Samskipa við verkefnið.

Sidewind stefnir að framleiðslu vindtúrbína sem komið er fyrir í opnum gámum. Vindmyllugámarnir nýta hliðarvind sem annars færi til spillis til framleiðslu rafmagns. Verkefnið fellur afar vel að umhverfis- og sjálfbærnimarkmiðum Samskipa því með notkun tækninnar eru líkur á að draga megi umtalsvert úr notkun jarðefnaeldsneytis í flutningunum og þá um leið útblæstri frá flutningaskip­unum.

Sidewind telur að með aðferðinni megi framleiða 5 til 30 prósent af orkuþörf skipa. Frumgerð vindmyllu Sidewind hefur þegar verið prófuð í vindgöngum í Háskólanum í Reykjavík, vindmælingar eru hafnar um borð í Helgafelli og vinna við smíði frumgerðar í fullri stærð sem verður prófuð um borð er að hefjast.

„Okkur finnst frábært að fá svona öflugt fyrirtæki eins og Samskip með okkur í lið. Samstarfið mun efla báða aðila við þróun grænna lausna,“ segir Óskar Svavarsson stofnandi  og forstjóri Sidewind.  

„Við hlökkum til samstarfsins við Sidewind og finnst þetta verkefni afar spennandi. Samskip eru ávallt með augun opin fyrir tækifærum til að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar og gleður okkur að fá að taka þátt í þróun þessarar nýju tækni,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðu­maður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.

Skrifað var undir samning um stuðning Samskipa við verkefnið föstudaginn 9. apríl síðastliðinn.

Sidewind ehf. er frumkvöðlafyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík. Fyrirtækið er í eigu stofnend­anna, Maríu Kristínar Þrastardóttur og Óskars Svavarssonar. Sidewind byggir á hugmynd Óskars um framleiðslu rafmagns með láréttum vindtúrbínum í opnum gámum.

Sidewind er meðal fyrirtækja sem nýverið voru tilnefnd til nýsköpunarverðlauna Samorku. Sjá nánar hér.