Tilfærsla sem stuðlar að bættri þjónustu
„Við erum aðeins að breyta húsnæðisskipulaginu hjá okkur,“ segir Guðríður Birna Ragnarsdóttir, forstöðumaður þjónustudeildar Samskipa . Við erum að hefjast handa við flutninga þar sem níu starfsmenn þjónustudeildar færa sig á milli hæða í höfuðstöðvum Samskipa við Kjalarvog í Reykjavík, af fyrstu hæð upp á þriðju.
Í framhaldinu færa starfsmenn innanlandsdeildar sig niður á fyrstu hæð þegar búið verður að gera nauðsynlegar breytingar á rýminu, sem reikna má með að verði í maí.
„Markmiðið er náttúrlega að auka og bæta þjónustuna við viðskiptavini okkar, sérstaklega í innflutningi,“ segir Guðríður Birna, en tilfærslurnar koma í kjölfar breytinga á skipuriti Samskipa þar sem þjónustudeild fyrirtækisins var færð undir innflutningssvið. „Við verðum þar með nær fólki sem við vinnum með, svo sem viðskiptastjórum og eins þeim sem stýra skipunum og halda utan um áætlanir.“ Sömuleiðis færist starfsfólk innanlandsdeildar, sem var á þriðju hæðinni, nær samstarfsfólki sínu í afgreiðslu á fyrstu hæðinni. „Í rauninni er bara verið að færa fólk sem vinnur saman nær hverju öðru.“
Guðríður Birna segir dálítið síðan hugmyndin um þessar tilfærslur kom upp, en nú er tími kominn á aðgerðir. Flutningarnir eigi að vera afstaðnir að mestu eftir helgi. „Það eru allir mjög jákvæðir, enda skipulagið betra á eftir. Við í þjónustudeildinni færumst nær þeim sem við erum að vinna með og innanlandsdeildin kemst nær sínu samstarfsfólki hér innanhúss.“