Viðtal við Hentzia Andreasen í Lágabö
Hentzia Andreasen í Lágabö, verkstjóri á pallinum, hefur starfað hjá okkur tíu ár en pallurinn er vörumóttaka og afgreiðsla fyrir innanlandsdeild Samskipa. Við tókum hana tali til að fræðast um verkefni hennar fólks og til að kynnast Hentziu betur. Hún er mörgum starfsmönnum kunnug enda býður hún vöffluveislu í hverjum mánuði niðri á palli.
„Ég er fædd og uppalin í Færeyjum 1976 á Suðurey og kom hingað til Íslands í fyrsta skiptið 1993 og var þá Au Pair í Garðabæ í eitt ár" segir Hentzia en henni virðist hafa líkað vistin ágætlega því hún átti eftir að flytja varanlega til Íslands ekki svo löngu síðar. „Ég fór heim aftur og kláraði tíunda bekk á Jótlandi í Danmörku og kláraði stúdentinn heima og vann þá sem barþjónn á meðan. Ég var líka að vinna í þrjú ár hjá flutningafyrirtæki svipuðu Samskipum í Færeyjum og það atvikaðist svo þannig að ég flutti loks til Íslands 2001 og er búin að vera hér síðan" segir Hentzia.
„Þegar ég flutti hingað fór ég að vinna á elliheimili fyrstu þrjú árin því mig langaði að læra tungumálið. Gamla fólkið getur kennt manni svo margt og þau hika ekki við að leiðrétta mann. Svo fór ég að vinna hjá Færeyska sjómannaheimilinu í eitt ár í Brautarholti, þaðan fór ég til Fraktlausna sem voru síðar sameinaðar Icetransport og svo kom ég loks til Samskipa 2008 og er búinn að vera hér semsagt í tíu ár."
Kann að meta „skemmdan" mat
Íslenskir og færeyskir siðir eru að mörgu leyti svipaðir og því hefur ef til vill ekki verið svo stórt skref fyrir Hentziu að flytja til Íslands. Í það minnsta ættu matarsiðirnir ekki að koma á óvart þótt við njótum alþjóðlegra rétta í eldhúsinu hjá Mána kokki. „Ég er gift konu sem heitir Birgitta og er úr Mývatnssveit og það er mjög hentugt og skemmtilegt því mér finnst skemmdur matur góður og Mývetningar eiga nóg af honum" segir Hentzia og hlær. „Við eigum líka lítinn fugl sem heitir Fíbí - og dregur nafn sitt af Phoebe úr sjónvarpsþáttunum Friends."
Aðspurð um hvað Hentzia geri sér til dægrardvalar segist hún hafa gaman af ferðalögum og þá sérstaklega siglingum: „Ég hef gaman af ferðalögum, siglingum aðallega, en einnig matargerð, tónlist og svo er ég stuðningsmaður Arsenal. En það sem ég brenn einna helst fyrir er að reyna að hjálpa fólki sem þarfnast stuðnings í lífinu. Við reynum að vera stúlku með ADHD til stuðnings, ég hef verið sjálfboðaliði í athvarfi fyrir konur og það hefur stundum verið sagt um mig að ég megi ekkert aumt sjá enda reyni ég að gera fallega hluti í lífinu. Ég trúi því að það sem maður gerir vel það fái maður tilbaka. Ég hef gaman af því að gefa af mér."
Vöffluboðin vinsæl
Stærstu dagarnir eru alltaf þriðjudagar, annar kúfur oft á fimmtudegi. Innan dags er mest að gera við opnun klukkan 8 og milli 10-11 og svo klukkan 14 og loks klukkan 17 er vitlaust að gera við að koma vörum út. Við erum með gott fólk og góðan móral. Það eru átta þjóðerni sem vinna hjá okkur af fjölbreyttum menningarhópum, samvinnan er góð og við tökum tillit hvert til annars. Við gerum líka ýmislegt okkur til upplyftingar. Síðasta föstudag í hverjum mánuði höldum við vöffluboð fyrir starfsfólkið og þeim viðskiptavinum sem koma á þeim tíma er auðvitað boðið upp á vöfflu líka. Vöfflurnar eru vinsælar og svo gerum ýmislegt fleira okkur til dægrarstyttingar, grillum t.d. á pallinum og reynum að gera eitthvað saman.
Samvinna
„Annars hef ég mikinn áhuga á vinnunni. Ég hugsa mikið út í hvernig ég get unnið betur. Þegar ég byrjaði hjá Samskipum þá var ég lestunarstjóri í miðhúsinu við hurð 28 og svo varð ég verkstjóri í tínslunni og svo verkstjóri í móttöku í hýsingu og var þar til 2016 og núna í dag er ég verkstjóri á pallinum. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á að umgengni sé góð og það þarf að þrífa vel hér í kring því það skiptir máli fyrir núverandi og tilvonandi viðskiptavini - að viðskiptavinurinn sjái hreint og snyrtilegt svæði svo hann vilji treysta okkur fyrir vörunni sinni. Ég legg líka mikið upp úr stundvísi og góðum vinnubrögðum og við verkstjórarnir höfum verið að kenna okkar fólki á fleiri störf svo fólk geti gengið í annarra störf þegar aðrir þurfa á hjálp að halda.
Starfsfólk Hentziu var ánægt með Happy Hour sem Samstarf hélt í haust en sá viðburður mæltist almennt vel fyrir. Það er hinsvegar almennt erfitt að finna viðburðum tíma sem hentar öllum enda vinnutímarnir í húsinu mismunandi og sumstaðar til 17:30 eða jafnvel til 19:00. Það er því vinsælt þegar viðburðir eru skipulagðir að þeir séu tímasettir þannig að þeir nýtist sem flestum.
Flottur kokkur hjá Samskipum
Að lokum vill Hentzia hrósa Mána kokk og starfsfólkinu í mötuneytinu. „Ég man ekki eftir því að hafa þurft að berjast við vigtina áður!! Máni er mjög góður kokkur. Við eigum í ágætu samstarfi við Mána því við hjálpum honum stundum ef hann vantar fleiri hendur. Þetta er meðal þess sem við getum gert til að hjálpa öðrum ef við erum aflögufær."