Notaðir fólksbílar

Móttaka ökutækja, bókun í skip og geymsla í útflutningshöfn

Áður en ökutæki er afhent Samskipum til útflutnings þarf sendandi að vera búinn að hafa samband við skrifstofu Samskipa og fá verðtilboð í viðkomandi flutning. Einnig þarf sendandi að bóka ökutækið í skip og afhenda nauðsynleg gögn til að hægt sé að flytja ökutækið.

Fólksbílar verða að hafa borist Samskipum í síðasta lagi á þriðjudögum.

Sendandi þarf að afhenda eftirfarandi:

  • Afrit af sölureikningi í þeim tilfellum þegar verið er að selja viðkomandi ökutæki. Sölureikningur þarf að innihalda eftirfarandi upplýsingar á ensku: bíltegund og undirgerð, skráningarnúmer, verksmiðjunúmer bifreiðar og árgerð.
  • Skráningarskírteini bifreiðar. Ef umráðamaður er annar en skráður eigandi þarf sendandi að afhenda skriflegt útflutningsleyfi frá eiganda.
  • “Græna kortið” sem er alþjóðlegt tryggingarskírteini. Sendandi þarf að útvega þetta skírteini frá sínu tryggingafélagi.

Sendandi er ábyrgur fyrir að afskrá ökutæki hjá Umferðarstofu.

Þegar ökutækið hefur verið bókað í skip og nauðsynleg gögn hafa verið afhent fær sendandi upplýsingar um hvar afhenda á ökutæki til lestunar í gám.

Ekki er leyfilegt að afhenda ökutæki til flutnings og hafa einhverskonar farm í ökutækinu, svo sem búslóð, föt, verkfæri o.fl.

Tollafgreiðsla

Samskip/Jónar Transport annast útflutningsskjalagerð fyrir sendanda. Einnig er mögulegt að fá útgefið EUR-1 skírteini í þeim tilfellum sem þess er þörf. Sendandi er ábyrgur fyrir að afhenda öll gögn sem til þarf til þess að hægt sé að tollafgreiða.

Bifreið er ekki flutt úr landi fyrr en útflutningsheimild er veitt frá tolli.

Tryggingar

Í flutningsgjöldunum er ekki innifalin trygging sem ábyrgist tjón í flutningi. Sendandi þarf sjálfur að kaupa tryggingu fyrir flutninginn. Þjónustudeild Samskipa getur aðstoðað við kaup á tryggingum.

Uppskipun og afgreiðsla í erlendri höfn

Erlendar skrifstofur Samskipa munu sjá um tollafgreiðslu bifreiða í erlendri höfn. Að tollafgreiðslu lokinni er bifreiðin tilbúin til afhendingar. Bifreið er geymd í vöruhúsi eða á plani þar til móttakandi sækir bifreiðina. Ef móttakandi sækir ekki bifreið á tilsettum tíma falla geymslugjöld á viðkomandi bifreið.

Greiðslufyrirkomulag

Greiða þarf fyrir flutning við afhendingu bifreiðar til Samskipa.