140 nýir frystigámar í flota Samskipa – fjárfesting upp á 430 milljónir króna

Samskip hafa fest kaup á 140 nýjum 45‘ gámum sem eru sérstaklega hannaðir fyrir hitastýrða flutninga á lengri leiðum félagsins um allan heim. Gámarnir eru léttari og sérlega umhverfisvænir.

Gámarnir eru léttari og sérlega umhverfisvænir. Gámarnir voru smíðaðir í Kína fyrir Samskip og við hönnun þeirra var lögð sérstök áhersla á að þeir væru eins umhverfisvænir og kostur er. Fjárfestingin nemur ríflega 3,8 milljónum dollara eða tæpum 430 milljónum íslenskra króna.

Dótturfélag Samskipa, Samskip Coolboxx hefur þegar fengið gámana afhenta og eru þeir komnir í notkun víðsvegar í flutningakerfi félagsins. Með nýju gámunum eykst enn frekar þjónustuöryggi og einnig er hægt að auka til muna framboð á hitastýrðum flutningum. Samskip Coolboxx er félag sem sérhæfir sig í að leigja út gáma fyrir flutningafyrirtæki. Visbeen Transport Group og Post-Kogeko Logistics eru flutningafyrirtæki sem leigja gáma af Coolboxx. Samskip eignuðust félagið í nóvember 2012 og var nafni þess breytt í Samskip Coolboxx og jafnframt gengið frá samkomulagi við tvö áðurnefndu flutningafélögin. Á sama tíma var ákveðið að Coolboxx myndi breyta umsvifum sínum með þeim hætti að taka í notkun 45‘  léttvigtargáma eins og þá sem afhentir voru nýlega. Starfsemi Coolboxx hefur gengið mjög vel og var vöxtur félagsins um 25% á síðasta ári og var það nokkuð umfram væntingar.

Umhverfisvænni og léttari

Nýju gámarnir eru  ríflega 200 kg léttari en sambærilegir gámar og eykur það nýtingarhlutfall á öllum leiðum. Þeir eru hannaðir með það fyrir augum að hámarka afköst. Innra byrði þeirra er slétt og auðveldar það þrif og flýtir lestun og losun. Einangrunin, eða innra byrði gámanna er úr umhverfisvænu efni og samrýmist það umhverfisstefnu Samskipa.

Hver gámur hefur að geyma Thermo King Plus rafal sem sérstaklega er hannaður fyrir lengri flutninga á djúpfrystri, frosinni, kældri eða hitaðri vöru. Hitastig gámanna hleypur á – 30 gráðum upp í + 30 gráður.

 

Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa

„Þessi fjárfesting er hluti af þeirri stefnu Samskipa að stækka flutningakerfi félagsins og um leið að bjóða umhverfisvænni flutninga og aukna kostnaðarhagkvæmni fyrir viðskiptavini. Með þessari fjárfestingu eru Samskip að bjóða fjölbreyttari möguleika í hitastýrðum flutningum á öllum leiðum. Þessi hönnun endurspeglar líka vel umhverfisstefnu félagsins.“