Aðgerðir Samskipa til þess að tryggja órofna starfsemi og þar með afhendingaröryggi á vörum viðskiptavina

Vegna COVID-19 hefur hjá Samskipum verið unnið hörðum höndum að ráðstöfunum til að tryggja öryggi starfsmanna og til að tryggja órofna starfsemi og þar með afhendingaröryggi á vörum viðskiptavina.

Vegna COVID-19 hefur hjá Samskipum verið unnið hörðum höndum að ráðstöfunum til að tryggja öryggi starfsmanna og til að tryggja órofna starfsemi og þar með afhendingaröryggi á vörum viðskiptavina. Neyðarnefnd Samskipa var virkjuð 1. mars og hefur hún mótað ýmsar breytingar á starfseminni til að bregðast við aðstæðunum sem nú eru uppi.

Hlutverk Samskipa er skýrt. Samskip veita alhliða flutningaþjónustu til og frá landinu, sem og innanlands. Þannig gegnir fyrirtækið mikilvægu hlutverki fyrir viðskiptavini sína og samfélagið allt. Meginmarkmið aðgerðanna sem gripið hefur verið til styður fyrirtækið í að halda óskertri þjónustu við viðskiptavini á þessu óvissutímabili.

Samskipum í Kjalarvogi hefur verið skipt upp í fjögur hólf:

  • Hólf 1: Vöruhús, Pallur, Hýsing og Gámalosun
  • Hólf 2: Gámavöllur, Verkstæði, Ísheimar, Svala, Bílaport og Hlið
  • Hólf 3: Skrifstofa á þriðju hæð og skrifstofa Jóna Transport
  • Hólf 4: Skip, en þau eru jafnframt einangruð hvert frá öðru – áhafnir fara ekki frá borði í höfnum og gestakomur bannaðar

Hólfin eru aðgangsstýrð þannig að starfsmenn hafa einungis aðgang að sínu hólfi.

Annað sem gert hefur verið til að draga úr hættu á smiti:

  1. Mötuneyti starfsmanna hefur verið lokað. Eldhús afgreiðir matarbakka fyrir hverja starfsstöð fyrir sig.
  2. Líkamsræktarstöð hefur verið lokað.  
  3. Fyrirkomulag vakta í vöruhúsi og á gámavelli er með þeim hætti að vaktir hittast ekki.
  4. Öllum utanlandsferðum á vegum fyrirtækisins hefur verið frestað.
  5. Öllum „stærri“ fundum hefur verið aflýst eða frestað og starfsmenn taka ekki þátt í stærri fundum utanhúss.
  6. Á öllum fundum er boðið upp á þátttöku með fjarfundarbúnaði.
  7. Heimsóknir gesta í fyrirtækið eru takmarkaðar og miðast við afmörkuðu svæði.
  8. Aðgangur gesta um borð í skip Samskipa takmarkaður og heimsóknir bannaðar nema í mjög nauðsynlegum undantekningatilvikum. Allir gestir um borð í skip Samskipa þurfa að svara spurningalista vegna COVID-19.
  9. Áhafnir fara ekki frá borði í erlendum höfnum.
  10. Starfsmenn listaðir upp með tilliti til getu/réttinda og geta þá flust milli starfsstöðva ef þurfa þykir.
  11. Listi yfir lykilstarfsmenn og varamenn hefur verið sendur til Almannavarna.
  12. Haldin er skrá yfir ferðalög starfsmanna í frítíma þeirra, hvenær þeir koma aftur til starfa og hvar þeir hafa verið. Þeir sem hafa verið á hættusvæðum fá ekki að koma til vinnu fyrr en að 14 dögum liðnum.
  13. Skiptum starfsmönnum upp í vaktir innan starfstöðva sem hittast ekki
  14. Ekki er óskað eftir að viðskiptavinir kvitti fyrir móttöku á vöru.
  15. Gámastýring hefur verið aukin til að tryggja viðskiptavinum okkar örugga flutninga.

Vöruflutningar til og frá landinu eru grunnþjónusta sem mikilvægt er að raskist ekki og leggjast Samskip á árar með stjórnvöldum með því að grípa til markvissra aðgerða til að tryggja samfellu í flutningunum og draga eftir megni úr líkum á að röskun verði á þeim. Samskip hvetja til bæði starfsfólk og viðskiptavini til að sýna samstöðu og hjálpast að í þessum óvenjulegu aðstæðum af völdum COVID-19 þar sem hlutir kunna að breytast mjög hratt. Frekari upplýsingar um COVID-19 og aðgerðir af hálfu hins opinbera er að finna á nýjum upplýsingavef Embættis landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, www.covid.is.