Ætla að leita að flaki SS Wigry
Freista á þess í sumar að finna flak pólska flutningaskipsins SS Wigry sem fórst í aftakaveðri nærri Mýrum fyrir 75 árum síðan. Af 27 manna áhöfn lifðu aðeins tveir af, einn Íslendingur og einn Pólverji. Í maílok var afhjúpaður minnisvarði um skipið í fjörunni við Syðra Skógsnes og minningarsýningin „Minningin lifir“ opnuð í Sjóminjasafninu í Reykjavík.
Witek (Alexander Witold) Bogdanski, sem starfar í flutningastjórnunardeild Samskipa, er sýningar-stjóri sýningarinnar, en hann hefur unnið afar óeigingjarnt starf við að afla upplýsinga um skipið. Witek hefur meðal annars beitt sér fyrir byggingu líkans af skipinu, sem er til sýnis í Sjóminjasafninu, ásamt öðrum fróðleik um þessa síðustu sjóferð SS Wigry.
Samskip styrktu smíði líkansins og tók Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, við þakkarskyldi við opnun sýningarinnar. Hún átti að standa út júnímánuð, en aðstandendur hennar hafa fengið boð um að hún standi fram á haust. Eru þeir að vonum ánægðir með viðtökurnar og að fleiri fái tækifæri til að skoða sýninguna og kynna sér þessa merku sögu.
Í sumar verður efni sýningarinnar einnig sett upp á Sjóminjasafninu í Gdansk í Póllandi, að undan-skildu líkani skipsins, sem verður áfram til sýnis hér á Íslandi.
Witek Bogdanski var nýverið boðið til Póllands þar sem minningarskjöldur um skipstjóra SS Wigry var afhjúpaður í Gdynia. Hann var við það tækifæri sæmdur gullkrossi Stofnunar Józefs Pilsudskis í Póllandi, en Pilsudski var pólsk þjóðhetja sem dó 1935. Þá fékk Witek einnig afhenta viðurkenningu frá pólska sjóhernum, sem hann hlaut meðal annars fyrir rannsóknarvinnu sína tengda SS Wigry.
Um miðjan júlí tekur Witek svo þátt í köfunarleiðangri þar sem þess verður freistað að finna flak SS Wigry og þar með enn frekari upplýsingar um þessa síðustu ferð flutningaskipsins.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Witek Bogdanski og Stanisław Władysław Śliwa, hershöfðingja Stofnunar Józefs Pilsudskis, þar sem verið er að sæma Witek orðunni í Gdynia í Póllandi 24. júní síðastliðinn.