Arnarfell kemur til Reykjavíkur eftir viðgerð í Þýskalandi

Arnarfell, flutningaskip Samskipa, kemur hlaðið gámum til hafnar í Reykjavík síðdegis í dag, 22.mars, eftir viðgerð í Bremerhaven í Þýskalandi.

Þar var gert við skemmdir sem urðu þegar ljóslaust og vélarvana skip rakst á Arnarfellið í Kílarskurðinum aðfaranótt 3. mars.

Þegar óhappið átti sér stað var Arnarfellið nýkomið inn í Kílarskurðinn Norðursjávarmegin. Það hélt áfram ferð sinni eftir 98 kílómetra löngum skurðinum og lagðist að bryggju í Árósum þar sem það var skoðað. Í ljós komu skemmdir og rifa ofan sjávarmáls, framan til á bakborðshlið skipsins. Arnarfellinu var þá aftur siglt eftir skurðinum til Bremerhaven þar sem gert var við skemmdir þess.

Arnarfellið var smíðað árið 2005 fyrir Samskip í þýsku skipasmíðastöðinni J.J. Sietas. Það hefur reynst vel í áætlunarsiglingum félagsins milli Íslands og Evrópu. Eftir viðgerðina í Bremerhaven hélt Arnarfellið til Rotterdam þar sem það var lestað og hélt síðan til Cuxhaven í Þýskalandi, Árósa í Danmörku, Varberg í Svíþjóð og Færeyja á leið sinni til Reykjavíkur.