Drögum úr matarsóun í mötuneyti Samskipa
Undanfarið ár hefur Máni Eskur og starfsfólk hans í mötuneytinu unnið að verkefni sem snýst um að draga úr matarsóun. Um að ræða vitunarvakningu sem snýr að samfélagslegri ábyrgð og umhverfismálum og er í samræmi við stefnu félagsins í þeim málaflokkum.
Við spurðum Mána út í verkefnið en það hefur vakið athygli starfsmanna að tölur um afganga á hverjum degi hafa verið birtar í mötuneytinu sem hvatning til starfsfólks til að dragar úr matarsóun. „Verkefnið fór þannig af stað að við byrjuðum að mæla alla afganga sem fólk skilar inn af diskum sínum í mötuneytinu. Gestir mötuneytisins raða semsagt matnum á diskinn, borða og koma svo og skila disknum á færiband fyrir þvottavélina en þar er hreinsað af diskunum í sértilgerða tunnu sem við tæmum og vigtum svo niðri í vöruhúsi hjá honum Hjalta Bjarnasyni“ segir Máni.
Þurfum að standa okkur betur í að skammta á diskana
„Verkefnið er langhlaup enda getum við gengið lengra með tíð og tíma. Við getum líka litið til annarra í samskonar verkefnum en það eru nokkur fyrirtæki að gera þetta til viðbótar við Samskip eins og t.d. Arion banki og þeir eru komnir aðeins lengra en við. Ég hef kynnt mér hvernig þetta er gert og við erum dálítið í startholunum ennþá í þessu verkefni sem er tvíþætt og snýst annarsvegar um það að kenna fólki að skammta sér rétt og hinsvegar um að nýta þá afganga af mat sem falla til sem best. Við þurfum hinsvegar að gera þetta rétt enda væri nú ekki skemmtilegt að standa yfir fólki og biðja það um að skammta sér hóflega á diskana en þetta snýst mikið um það að fólk skammti sér í hófi og fái sér frekar tvisvar.“
Hendum 10-12 kílóum af mat á dag að jafnaði
Að sögn Mána er mjög misjafnt hvað kemur út úr mælingum á matarsóun hverju sinni. Ef boðið er upp á til dæmis fínni mat þá er talsvert meira af afgöngum og Máni rekur það til þess að fólk leyfir sér meira þegar fínni matur er í boði. Með vigtun er markmiðið gera fólk meðvitað um mötuneytið er að henta 10-12 kílóum á dag af mat sem við gætum sparað. Þrátt fyrir vitundarvakninguna þá hefur þetta bara lagast örlítið hjá okkur og því er á brattann að sækja. „Mér er sagt að t.d. í Arion banka að það taki langan tíma að fá fólk til að draga úr skömmtunum og við erum því þolinmóð en vitum að við getum gert betur. Það er því mjög mikilvægt að koma þeim skilaboðum áleiðis að fólk fái sér minna á diskinn og komi þá frekar aftur til að fá sér smá í viðbót fremur en að setja of mikið á diskinn og henda afgangnum“ segir Máni.
Fyrir þá sem nota broskallakerfið er rétt að það komi fram að það gefur Mána góðar upplýsingar um hvort fólk er ánægt með matinn en það eru hinsvegar ekki nógu margir sem nota broskallakerfið. Þá segir Máni að það virðist ekki vera neitt samhengi á milli þess hvort fólk er ánægt með matinn og þess hvort minni eða meiri matarsóun er.
Ýmis hliðarverkefni í gangi
Það er hægt að gera ýmislegt fleira segir Máni. „Ég hef búið til hliðarverkefni úr þessu og við erum þá með frjálsar hænur á Kjalarnesi sem við förum með matarafganga til á meðan veður leyfir. Við fáum egg frá hænunum í staðinn og merkjum þau sem hamingjusöm egg á matseðli. Við höfum velt fyrir okkur hvort ekki væri tilefni til að fá bara svín til að éta afgangana jafnvel“ segir Máni og hlær.
Mögulegt að búa til orkugjafa úr afgöngum
„En annað sem við getum skoðað er að búa til orkugjafa úr matarafgöngunum, eitthvað sem gæti knúið einn bíl t.d. í innanbæjarakstri. Það væri þá keypt kvörn sem bætir afgöngunum út í síló og það verður þar að olíu og á þriggja mánaða fresti er það tæmt til að búa til lífdísil úr vökvanum. Maður sparar þá bæði rusl og gám og það eykur visthæfni okkar og skilar sér í þrifalegra umhverfi við sorpið.“
Máni reynir líka að takmarka umbúðir í mötuneytinu með því að fá kjöt í heilum stykkjum. „Það er merkilega erfitt að fá vöruna þannig og oft er eins og hún sé dýrari í stórum umbúðum en þeim smáu sem er stórmerkilegt. Ég held hinsvegar að þetta sé allt að koma og það sé ekki lengi að bíða að þetta þokist allt í rétta átt.“
Þrjár einfaldar reglur til að minnka matarsóun saman
Á meðal starfsfólks er nokkuð talað um að það sé erfitt að borða í mötuneytinu hjá Mána því maturinn sé svo góður að fólk bæti hreinlega á sig kílóum sem það má ekki við. Máni brosir að því en segir á móti hann vonist til að fólk prófi að skammta sér aðeins minna á diskana svo við getum náð matarsóuninni niður í 7-8 kíló á dag úr þessum 10-12 kílóum sem við hendum í dag. „Við ætlum að reyna að merkja þetta betur og við vonumst til þess að til lengri tíma þá getum við náð þessu niður svo um muni“ segir Máni.
„Þeir dagar sem við erum með sem mesta fjölbreytni þá er oft hent meiru. Fólk virðist þá fá sér af öllu í stað þess að velja eitthvað eitt sem fólk vill borða, t.d. ef fólk vill ekki fisk að fá sér þá heldur grænmetisrétt. Það að fá sér af öllu leiðir oft til þess fólk hendir meiri mat.“
Að lokum vill Máni koma því á framfæri að það sé gott fyrir hann að fá ábendingar, t.d. þegar of mikið brauð er í samlokum eða kjötbitar of stórir.
En það er eins í þessu og öðru sem við gerum að saman náum við árangri en framundan er það verkefni að ná matarsóuninni niður í 7-8 kiló á dag að jafnaði.
Til að ná því markmiði þurfum við að:
1. Skammta okkur minna á diskana og fá okkur frekar smá í viðbót
2. Velja frekar einn rétt sem okkur langar í frekar en að taka eitthvað af öllu og henda því sem okkur líkar ekki við
3. Hafa að markmiði þegar við erum búin að borða að við höfum fengið okkur mátulega mikið á diskinn til að hafa klárað alveg af honum