Eldhugi með fjölda áhugamála

Jón Ingi Þrastarson er stjórnandi hjá Samskipum í Rotterdam. Þar stýrir hann þjónustu Samskipa fyrir Íslenska markaðinn og Færeyjar. Hann fer fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum hópi samstarfsfólks í Árósum, Hull, Rotterdam, Varbergi og Cuxhaven.

Jón Ingi Þrastarson er stjórnandi hjá Samskipum í Rotterdam. Þar stýrir hann þjónustu Samskipa fyrir Íslenska markaðinn og Færeyjar. Hann fer fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum hópi samstarfsfólks í Árósum, Hull, Rotterdam, Varbergi og Cuxhaven. Áður var Jón Ingi viðskiptastjóri hjá útflutningssviði Samskipa í Reykjavík en hefur síðustu þrjú ár búið í Rotterdam. Hann á konu og eina litla stúlku sem búa með honum þar úti.

Jón Ingi var alveg til í að koma í stutt spjall svo að kynna mætti hann betur. Hann segir smellpassa við sig að starfa hjá Samskipum enda hafi hugur hans lengi leitað út fyrir landsteinana.

„Í Háskólanum á Bifröst lærði ég viðskiptafræði í alþjóðlegu deildinni, þar sem námið fór allt fram á ensku og skiptinemarnir voru með okkur í tímum. Ég nýtti líka tækifærið á meðan ég var á Bifröst og fór í skiptinám til Sjanghaí í Kína,“ segir Jón Ingi. Þegar hann svo frétti að hjá Samskipum væri laus staða sló hann til og sótti um. „Á þeim tíma þekkti ég aðeins til Samskipa, en mig óraði ekki fyrir því hvað Samskip eru í rauninni stór utan landsteinanna.“

Þegar Jón Ingi hóf störf hjá Samskipum hafði hann nýlokið viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst og fagnaði því vegna áhuga á alþjóðlegu umhverfi að fá stöðu við útflutning þar sem samskipti við erlendar hafnir og byrgja skiptu miklu, og hjá svona stóru og rótgrónu fyrirtæki með starfstöðvar um allan heim.

Byrjaði á þriðjudegi

„Ég hóf störf hjá Samskipum á þriðjudegi í desember árið 2013. Ég man að þetta var þriðjudagur því frænka mín, sem þá vann hjá Samskipum, benti mér á að það væri jólaboð á föstudeginum rétt fyrir mánaðarmótin og ég átti að byrja á mánudeginum eftir jólaboðið. Ég spurði hvort ég gæti ekki fengið að byrja á föstudegi í stað mánudags því yfir því væri ólukka að byrja í nýrri vinnu á mánudegi.“ Hafði hann þar í huga vel þekkt máltæki um að mánudagar væru til mæðu. „En því miður var Gunni Kvaran of upptekinn á föstudeginum sökum jólaboðsins og gat ekki tekið á móti mér þá. Þetta gekk því ekki alveg upp og ég byrjaði á þriðjudegi í stað mánudags.“

Síðan var það á árinu 2017 sem Jóni Inga bauðst að flytja sig á erlenda starfsstöð. „Ég er ákaflega þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. Við Jóhanna, konan mín sem þá var kærastan mín, fluttum tvö út til Rotterdam.“ Á þeim tíma hafi þau ekki vitað mikið um borgina, en hún hafi svo algjörlega heillað þau upp úr skónum. „Hún er til dæmis einhvern veginn allt öðruvísi en Amsterdam. Rotterdam fór mjög illa út úr seinni heimstyrjöldinni og er því með mikið af skemmtilegum arkitektúr eftir mikla uppbyggingu síðustu ár.“ Í janúar 2019 kom svo til stækkunar í fjölskyldunni. „Það kom í heiminn lítil dama, fædd hér í Rotterdam, og erum við búin að koma okkur einstaklega vel fyrir í borginni og líður mjög vel“ bætir Jón Ingi við.

Hefur lengi hjólað

Jón Ingi hefur alla tíð verið mjög virkur og á fjölda áhugamála. „Ég hef aldrei átt erfitt með að finna áhugamál, það er helst tímaskortur sem hamlar því að maður nái að sinna þeim öllum.“ Hann hefur alla tíð hjólað. „Þegar ég var lítill voru það reiðhjól, en svo tók krossarinn við og nú aftur reiðhjól.“ Sá áhugi fór á flug þegar Jón Ingi hóf störf hjá Samskipum en hann hjólaði í vinnuna flesta daga.

„Seinna meir var ákveðið að taka þátt í WOW Cyclothon sem er mögnuð upplifun!“ Hann hefur þrisvar tekið þátt og alltaf fundist jafn gaman. „Fyrsta skiptið var þó held ég mesta klikkunin, enda vissi maður svo sem ekki út í hvað maður væri að fara.“ Undirbúningur fyrir keppnina var góður og mikið æft, farið yfir skiptingar, bíla, búingamál og öll matarmál voru í toppstandi. „Þegar loksins kom að keppninni var mikið keppniskap og í hvert skipti sem var farið út að hjóla setti maður allt í botn og það var blóðbragð í munni allan hringinn. Þegar við loksins komum í mark var fagnað. Ég man að ég sofnaði í sófanum heima hjá Inga Þór strax eftir kvöldmatinn, fór svo heim og svaf örugglega í yfir 12 tíma, vaknaði svo með sjóriðu og lá uppi í sófa svo gott sem allan daginn alveg búinn á því.“

Í keppninni 2018 fékk lið Samskipa svo liðsauka frá tveimur samstarfsmönnum frá Hollandi. „Það var líka frábær upplifun og sérstaklega fyrir þá, enda er Holland eins flatt og það gerist.“

Fyrir utan hjólreiðar hefur Jón Ingi gaman af veiði, jafnt stangveiði sem skotveiði. „Undanfarin þrjú sumur höfum við farið heim og þá hef ég nýtt tækifærið og svalað veiðiþörfinni. Eins hef ég náð tveimur rjúpnaveiðitímabilum.“ Þess á milli segist hann fara reglulega á skotsvæði í Den Haag að æfa sig.

Las í lestinni

„Líkamsrækt hefur líka átt hug minn lengi. Ég var CrossFit þjálfari í nokkur ár og æfi það enn með konunni en CrossFit er frábær leið til að kynnast nýju fólki, að maður tali nú ekki um í nýju landi. CrossFit má kalla félagsmiðstöð fyrir fullorðna.“ Þessi áhugi á heilsurækt og áhersla þeirra hjóna á að hugsa vel um heilsuna segir Jón Ingi að hafi komið sér vil þegar þau fluttu fyrst út. „Þá kom í ljós smávandamál vegna þess hve bjórinn var ódýr og nokkur aukakíló bættust á belginn fyrstu mánuðina.“ Þau borða hins vegar alla jafna hollan mat og fara á æfingu fjórum til fimm sinnum í viku.

Jón Ingi þarf ekki að hugsa sig lengi um þegar hann er spurður að því hvaða bók, eða hugsuður, hafi haft mest áhrif á hann í lífi og starfi. „Ég hef aldrei lesið jafn mikið mér til skemmtunar og þegar ég var í Kína og ferðaðist milli landshluta í lestum. Þar er eftirminnilegust Alkemistinn, en í seinni tíð hef ég mikið hlustað á hljóðbækur þegar ég er einn í bílnum á leið í eða úr vinnu. Þar stendur næst að nefna Dale Carnegie, How to Win Friends & Influence People, sem er ótrúlega góð bók og svo viðeigandi jafnvel eftir allan þennan tíma, en hún var fyrst gefin út árið 1936.“

Það koma hins vegar meiri vöflur á hann þegar hann þarf að nefna hver myndi leika hann í kvikmynd. „En ef ég mætti velja hvern sem er, þá væri það líklega Daniel Day Lewis. Hann er bestur í að skila af sér mismunandi hlutverkum. En þetta er erfið spurning.“

Nýtur sín í vinnunni

Ef Jón Ingi mætti sinna hvaða starfi sem væri í eina viku þá segist hann myndu vilja fara á sjó í viku. „Það að vera fæddur á Sauðárkróki og alinn upp á Akranesi en hafa aldrei verið til sjós er náttúrlega eitthvað sem þyrfti að laga,“ segir hann og hlær.

Hann er annars mjög lukkulegur í sinni vinnu og segir hana einstaklega fjölbreytta og skemmtilega. „Það er nánast enginn dagur eins. Þetta er klisja, en þær eru oft sannar. Einna skemmtilegast er þó hvað þetta er áþreifanlegt og maður sér árangur erfiðisins. Við fáum beiðni um að sækja vöru alveg hinum megin á hnettinum og koma henni til Íslands og við græjum það frá A-Ö.“ Hann segir skemmtilegt að sjá alla keðjuna ganga upp, allt frá beiðni um flutning á skrifstofunni í Kína, meðhöndlun Rotterdam og viðtöku á Íslandi. „Þarna sér maður mátt liðsheildarinnar raungerast. Teymið okkar í Samskipum býr yfir gríðarmikilli reynslu og þekkingu. Margir með mörg ár að baki og svo koma nýir inn með aðrar áherslur, en saman verður til flott liðsheild.“

Áskoranir tengdar starfinu segir hann helst að tengist veðurfari. „Veðrið getur sett strik í reikninginn þegar flutt er vara til og frá eyju í miðju Atlantshafi. Það getur verið krefjandi.“ Jón Ingi segir lærdómsríkt að starfa í jafn kviku umhverfi og sífellt bætist í reynslubankann þegar tekist sé á við mismunandi áskoranir á vinnustaðnum.

Voru á Íslandi í sumar

Ef hann hins vegar ætlaði að bæta við sig í námi þá segir hann hugann leita í allt aðra átt. „Ég myndi örugglega læra á píanó. Ég fékk gítar að gjöf frá fjölskyldunni og hef nýtt Covid-tímann til að læra á hann.“ Það er jú lengi hægt að bæta við hjá sér áhugamálum. „Ég fer þó örugglega í meistaranám áður en ég læri á píanó,“ bætir hann við.

En þótt Covid hafi stutt við tónlistaráhugann segir Jón Ingi þessa tíma um margt hafa verið skrítna. „Maður er bara þakklátur fyrir að vera uppi á tímum þar sem við erum með alla þessa tækni og hægt að tala við fjölskyldu og vini í gegnum myndavél. Án þess væri þetta allt mun erfiðara.“ Fyrst eftir að fjölskyldan flutti út segir hann að afar gestkvæmt hafi verið hjá þeim. „Hér voru gestir annan hvern mánuð, en nú hefur enginn kominn frá Íslandi frá því í byrjun febrúar.“ Þetta hafi orðið til þess að fjölskyldan nýtti allt sitt sumarfrí á Íslandi. „Við stoppuðum í heilar sex vikur og nýttum tímann vel. Við keyrðum um landið, fórum að veiða í Fljótunum, skoðuðum Akureyri og hittum fjölskyldu og vini.“