Verkefni Samskipa um sjálfbær flutningaskip kynnt á sjávarútvegsráðstefnu
Stærsta sjávarútvegsráðstefna á sviði sjávarútvegs, North Atlantic Seafood Forum (NASF), var haldin 5. – 7. mars í Bergen en í ár er Ísland gestaþjóð á ráðstefnunni.
Are Grathen framkvæmdastjóri hjá Samskipum í Noregi hélt erindi þar sem hann fór meðal annars yfir þau verkefni sem Samskip tekur þátt í en félagið er í dag leiðandi í visthæfni sem stærsta fjölþátta flutningafyrirtæki (Multimodal) Evrópu. Fjölþátta flutningar eru umhverfislega hagkvæmir og þróunin undanfarin ár er í takt við kröfur neytenda en fyrirtæki líta í auknum mæli til flutninga sem draga úr losun koldíoxíðs til að mæta kröfum um minna kolefnisfótspor neysluvöru. Þetta á ekki síst við í sjávarútvegi.
Viðskiptablað Morgunblaðsins hefur fjallað áður um E pilot verkefnið og byggjum við á frétt miðilsins hér fyrir neðan.
Are sagði meðal annars frá því að þessi umhverfisbakgrunnur Samskipa hafi orðið til þess að Samskip urðu fyrir valinu til að leiða verkefni í Noregi þar sem í þróun er næsta kynslóð sjálfbærra skipaflutninga á styttri sjóleiðum. Verkefnið vakti mikla athygli í erlendum fjölmiðlum en mikil umfjöllun var um það í Evrópu en einnig í Bandaríkjunum, Indlandi og Rússlandi.
Það eru norsk stjórnvöld sem styrkja verkefnið, er nefnist „Seashuttle", en þau láta af hendi rakna 6 milljónir evra, eða sem svarar til rúmlega 795 milljóna íslenskra króna, sem notaðar verða til að hanna sjálfvirk gámaskip sem gefa ekki frá sér mengandi útblástur en eru um leið arðbær til rekstrar.
Seashuttle er eitt sex verkefna í „PILOT-E", yfir 100 milljóna evra (11,6 ma. kr.) þróunarverkefni sem að koma meðal annars Rannsóknaráð Noregs, Innovation Norway og Enova. Verkefnið snýst um að flýta hönnun og nýtingu tækni sem henti umhverfisvænum iðnaði framtíðar. Að fjármögnun Seashuttle standa fjögur norsk ráðuneyti (ráðuneyti matvæla og fiskveiða; loftlags og umhverfis; jarðolíu og orku; og samgangna og fjarskipta).
Visthæfni flutninga fær aukið vægi
Are Grathen segir verkefnið mjög spennandi fyrir Samskip sem taka nú forystuna í visthæfum flutningum á styttri leiðum. „Það sem er sérstakt við þetta verkefni er að lykillinn að árangri er samvirknin í eldsneytisnotkun og tækni til að ná fram arðbærum og visthæfum flutningum. Við teljum þetta raunhæft markmið“ segir Are Grathen. Ætlunin er að skipið verð sjálfvirkt og losi engar gróðurhúsalofttegundir eins og áður er komið fram. Sem flutningalausn yrði „Seashuttle“ verkefnið því í harðri samkeppni við þá tvö þúsund vörubílsfarma sem eiga leið um norskar hafnir á hverjum degi.
Þá skipa LNG skip Nor Lines í Noregi einnig stórt hlutverk í umhverfishæfni Samskipa en losun níturoxíðs er 90% minni og hið sama á við um úrgangsolíu. Í heild losa gasskipin Kvitnos og Kvitbjorn 35% minna af gróðurhúsalofttegundum.
Samskip hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á visthæfni flutninga og er félagið m.a. stofnaðili Votlendissjóðsins sem stofnaður var vorið 2018. Endurheimt votlendis dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og engin leið er áhrifaríkari á Íslandi. Endurheimt votlendis er stunduð af miklum krafti í fjölmörgum löndum eins og Kanada, Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum. Þá leitast Samskip á Íslandi við að notast við eins nýjar vöruflutningabifreiðar og hægt er, lágmarka orkunotkun með sólarsellum eins og gert var á kæligeymslum FrigoCare í Rotterdam og bjóða kolefnisreiknivél fyrir viðskiptavini svo hægt sé að reikna út ávinning af fjölþátta flutningum.