Landflutningar kaupa bíla og tæki fyrir hálfan milljarð

Samskip hafa keypt bíla og margvísleg tæki fyrir um 150 milljónir króna á síðustu mánuðum fyrir Landflutninga. Frekari bíla- og tækjakaup eru framundan og er áætlað að þau kaup  nemi um 350 milljónum króna. 

Samskip hafa keypt bíla og margvísleg tæki fyrir um 150 milljónir króna á síðustu mánuðum fyrir Landflutninga. Frekari bíla- og tækjakaup eru framundan og er áætlað að þau kaup  nemi um 350 milljónum króna. Endurnýjaður og öflugri floti fyrirtækisins verður umhverfisvænni en áður og mun auðvelda Landflutningum að viðhalda og efla þjónustustigið. Fjárfest verður  í tækjum og bifreiðum á öllum sviðum og þjónustustöðvum félagsins. Gísli Þór Arnarson framkvæmdastjóri innanlandssviðs Samskipa fagnar þessari fjárfestingu. „Við erum að efla flotann okkar og uppfæra enn frekar þá þjónustu sem við bjóðum viðskiptavinum. Á sama tíma er hluti af þessari miklu fjárfestingu eðlilegt viðhald og endurnýjun.“

 Nýir flutningabílar

Fimm nýir Scania dráttarbílar hafa bæst við flota Landflutninga frá áramótum. Um er að ræða fjóra tíu hjóla dráttarbíla og einn átta hjóla.

Allir bílarnir eru ríkulega búnir tækjum og tólum sem miða að því að auka öryggi og tryggja minni útblástur og eins „grænan flutning“ og völ er á.  Bílarnir eru búnir vélum af EURO6 gerð sem eru umhverfisvænustu dísilvélar sem í boði eru.

Bílarnir eru tengdir gagnabanka Scania í gegnum gervihnött sem fylgist með ástandi og notkun sem nýtist til að lágmarka rekstrarkostnað og er leiðbeinandi um aksturslag. Allir bílarnir eru búnir hraðatakmarkara sem takmarka hámarkshraða bíls við 90 km.

Með þessari fjárfestingu er tryggt að áfram verður viðhaldið mjög háu þjónustustigi á

áætlunarleiðum Landflutninga og rekstraröryggi eykst á sama tíma. 

 Tvær nýjar gámalyftur

Landflutningar – Samskip hafa tekið í notkun tvær nýjar gámalyftur af gerðinni Box Loader. Lyfturnar eru fjölnota og eru fyrir bæði 20“ og 40“ gáma. Lyfturnar eru sérstaklega lágbyggðar til að lágmarka heildarhæð tækis sem eykur öryggi í akstri og auðveldar einnig aðgengi hjá viðskiptavinum við losun og lestun.   Gámalyfturnar eru með sjálfstæðan vélbúnað til að drífa vökvakerfi gámakrana sem eykur afköst verulega.  Lyfturnar eru sérstaklega styrktar og geta lyft allt að 35 tonna þungum gámum og er þeim stjórnað með þráðlausum fjarstýringum.

   Sex ný tæki fyrir vörumiðstöðina

 Samskip hafa fest kaup á sex nýjum tækjum til notkunar í vörumiðstöð félagsins í Kjalarvogi af VB Vörumeðhöndlun.  Er um að ræða tvo rekkalyftara, tvö tínslutæki og tvö brettatæki frá framleiðandanum Jungheinrich sem munu nýtast vel í afgreiðslu til viðskiptavina vörumiðstöðvarinnar. Eru kaupin liður í endurnýjun tækjaflota vörumiðstöðvarinnar og munu þau auka afkastagetu til muna.

 

Gísli Þór Arnarson segir von á fleiri nýjum bílum og tækjum fyrir alla þætti starfsemi Landflutninga. „Vissulega er hér um að ræða mikla fjármuni, en við teljum þetta nauðsynlegt til að geta áfram verið í fremstu röð í þeirri samkeppni sem ríkir á þessum markaði. Við erum að stíga stór skref fram á við með þessum fjárfestingum.“