Litríkur töffari við stjórnvölinn á Akureyri

Henný Lind Halldórsdóttir er nýráðin sem rekstrarstjóri svæðisskrifstofu Samskipa á Norðurlandi. Hún er þó langt því frá einhver nýgræðingur hjá fyrirtækinu á Akureyri, heldur hóf hún fyrst störf sem sumarstarfsmaður í afgreiðslu 2012, en fékk svo fulla ráðningu og hefur starfað óslitið hjá Samskipum síðan. Allan tímann hefur hún haft umsjón með þjónustu við skemmtiferðaskip sem sækja Akureyri heim.

Lætur fátt stoppa sig

Henný Lind er jafnframt menntaður lögfræðingur en hún lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri í júní 2013. Síðan þá hefur hún svo bætt enn frekari við sig í menntun og hefur lokið einu og hálfu ári í lögreglufræðum frá sama skóla. „Og fór í það svona af því bara,“ bætir hún við glettin, en hún hafi áhuga á fræðunum. Hvort hún geri eitthvað meira með það nám, eins og að söðla um og ganga til liðs við laganna verði, sé hins vegar ekki á dagskrá, í það minnsta ekki á næstunni. „Sá starfsvettvangur passar illa við að vera ein með barn, eins og ég er.“

Henný er jákvæð og hress og segist sjálf vera litríkur persónuleiki. Hún býr ein með átta ára syni sínum, en föður hans segir hún að þau hafi misst árið 2016. Áföll séu hins vegar verkefni til að takast á við. „Það er fátt sem ég læt stoppa mig.“

Þótt Henný sé glaðvær og með frjálslegt yfirbragð þá er hún líka heilmikill nagli. Það endurspeglast í Mynd-2-webeinkunnarorðum sem hún hefur látið flúra á ensku á líkama sinn, I‘m though, ambitious, and I know exactly what I want. Eða í lauslegri þýðingu að hún sé hörð af sér, framagjörn og viti nákvæmlega eftir hverju hún sækist. „Þetta lýsir mér, það er bara þannig. Alveg sama hvað gengur á, þá heldur maður bara áfram að vera jákvæður.“

Frábært fólk hjá Samskipum

Fyrir utan vinnu er Henný Lind virk, en í ljósi persónulegrar reynslu segir hún sjálfsvígsforvarnir sér ofarlega í huga. „Ég hef reynt að vekja athygli á því málefni meðal annars með þátttöku í frábærum hópi fólks sem stóð núna í vor að göngunni Úr myrkrinu í ljósið og svo sagði ég mína sögu hér í Akureyrarkirkju á sjálfsvígsforvarnardeginum 10. september síðastliðinn.“ Máli skipti að verkefni sem mæti fólki, stór og smá, takist það ekki eitt við, heldur skipti samvinna höfuðmáli. „Við gerum þetta öll saman.“

Annars segist Henný bara vera sveitastelpa sem lifi sínu lífi í höfuðstað Norðurlands. Hún er fædd og uppalin á Þórshöfn á Langanesi. „Besta stað Íslands. Það var rosalega gaman að alast upp á svona litlum stað,“ segir hún, en í uppvextinum hafi hún notið þess frelsis sem umhverfið hafði að bjóða. „Á svona stöðum þekkja allir alla og maður gat verið eins og maður vildi vera, úti að leika, alls staðar.“ Þá hafi hún líka notið grunnskólans sem hafi verið afskaplega góður og kennararnir frábærir.

 Þegar Mynd-3-webkom að framhaldsskólaaldri hleypti Henný svo heimdraganum. „Ég flyt sem sagt að heiman sextán ára gömul og hef ekki farið heim aftur nema bara í heimsóknir. Ég flutti 2004 með mínum manni hingað inn eftir og byrjaði að búa. Strákinn minn eignast ég 2010 og hér er ég enn.“ Henný segir að sér líki einstaklega vel á Akureyri. ,,Svo er líka frábært fólk að vinna með hér hjá Samskipum. Gott samstarfsfólk er náttúrlega lykillinn að því að fólki líki vel í vinnunni.“   

Sveitastelpa í grunninn

„Og svo bara samvera með fólki. Mér finnst rosa gaman að vera með fólki og gera eitthvað skemmtileg. Svo er Mynd-4-webég náttúrlega pínu nörd,“ bætir hún við og vísar þar til einstaklega mikils áhuga á sakamálum og grúskar mikið í skrifum, sjónvarpsþáttum og myndum þar sem sakamál eru í forgrunni, jafnt skálduð sem raunveruleg.

 „En í grunninn er ég samt bara sveitastelpa og fer heim í sauðburð og svona á vorin. Svo reyni ég náttúrlega að nota samverutímann með litla mínum sem best. Við erum dugleg að gera hluti saman, förum út í sveit einu sinni i viku á hestbak, svo förum við skauta og ýmislegt. Svo erum við að reyna að vera eins og ekta Akureyringar að fara í Hlíðafjall á veturnar, en gengur misvel,“ segir hún og hlær.

Eitt nýtt áhugamál tengist þó vinnunni hjá Henný. Hún hefur haft yndi af ferðalögum í gegn um tíðina, en eftir kynni sín af skemmtiferðaskipum hefur hún prófað að fara í siglingar og segist heilluð af þeim ferðamáta. „Ég fór í fyrsta skipti í Karíbskahafið í febrúar síðastliðnum og er að fara aftur á næsta ári. Það er ekkert verð á þessum ferðum,“ segir hún og hlær.