Næsta kynslóð vetnisskipa smíðuð fyrir Samskip

Samskip hafa samið um smíði tveggja vetnisknúinna flutningaskipa til notkunar á skemmri siglingaleiðum í Evrópu. Félagið, sem er alþjóðlegt með skrifstofur í 24 löndum, færir sig með þessu í átt að útblásturlausum skipaflutningum.

Skipin, sem munu flytja vörur milli Noregs og Hollands, verða meðal fyrstu gámaflutningaskipa heims á
skemmri flutningsleiðum sem ganga á grænu vetni án mengandi útblásturs. Þegar keyrt er á vetni er
ætlað að sparist útblástur sem nemi um 25.000 tonnum CO2 hjá hvoru skipi. Þau verða einnig
útblásturslaus í viðkomuhöfn með notkun grænnar landorku.

Smíði skipanna er hluti af brautryðjendaverkefninu Seashuttle þar sem Samskip hafa verið í fararbroddi.
Hönnun skipanna er unnin í samstarfi við Naval Dynamics í Noregi, en samið hefur verið um smíðina við
leiðandi skipasmíðastöð á Indlandi, Cochin Shipyard Ltd.

Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa á Íslandi:
„Samskip fagna því að hafa fundið í Cochin Shipyard góðan samstarfsaðila sem deilir metnaði
fyrirtækisins um þróun umhverfisvænna flutningalausna og hlakka til farsæls samstarfs við
skipasmíðastöðina. Hönnun og smíði vetnisgámaskipanna er stórt skref í átt að
sjálfbærnimarkmiðum Samskipa og undirstrikar skuldbindingu okkar í þeim efnum. Við erum afar
stolt af þátttökunni í þessu verkefni, enda er baráttan við loftslagsbreytingar einhver sú
mikilvægasta sem allar þjóðir standa frammi fyrir. Samskip starfa um heim allan og leggja sig
fram um að vera fremst í flokki við að draga úr umhverfisáhrifum í flutningastarfsemi.“

Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður Markaðs- og samskiptadeildar Samskipa:
„Sjálfbærni er samofin kjarnastefnu Samskipa sem hefur markmið sín í þeim efnum að leiðarljósi
hvarvetna í starfseminni. Markið Samskipa er að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Í
skipaflutningum til og frá Íslandi árið 2022 minnkaði útblástur CO2 á hverja flutningseiningu um
15,2% milli ára og hafði þá dregist saman um 35,1% frá 2019. Þar spila saman aukin notkun
lífdísils og bætt nýting í flutningskerfum Samskipa. Vetnisskipin eru afar spennandi kostur
notkun þeirra í Noregi kemur til með að kenna okkur mikið um mögulega notkun slíkra skipa
víðar í flutningskerfi Samskipa.“

Verkefnið er eitt metnaðarfullra umhverfisverkefna Samskipa og unnið í samstarfi við græna
fjármögnunaráætlun norskra stjórnvalda sem miða að útblásturslausum flutningum með notkun nýrra
sjálfbærra tæknilausna.

Frekari upplýsingar veitir:
Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður Markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.
thorunn.inga.ingjaldsdottir@samskip.com